Stöndum vörð um allskonar!

1.sæti: Jón Gnarr

jongnarr

Formaður

Ég er fæddur 1967 og uppalinn í Reykjavík. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á stjórnmálum.

Sem ungur maður tók ég virkan þátt í starfi ungliðahreyfinganna. Ég var í Skátunum og var kosinn flokksforingi í Garðbúum eftir starf mitt þar.

Ég hef hitt Albert Guðmundsson og fór einu sinni í útilegu með Ólafi Jóhannessyni. Það voru krefjandi en skemmtilegir tímar.

Ég þekki stjórnmál eins og þau eiga að vera, eins og þau voru í gamla daga þegar menn báru virðingu fyrir hverjum öðrum og fyrir starfi sínu.

Í menntaskóla tók ég virkan þátt í stúdentapólitíkinni og var í allskonar nefndum. Ég elska stjórnmál. Þess vegna skoraðist ég ekki undan þegar haft var samband við mig og ég beðinn að veita Besta flokknum forystu. Ég vona að reynsla mín komi að góðum notum.

Ísland þarf pólitískan leiðtoga sem getur leitt þjóðina útúr því efnahagsmyrkri sem hún er í núna. Ég vil vera sá leiðtogi. Ég er tilbúinn að mæta á fundi og ferðast um landið, bæði einsamall og með öðrum, og tala við fólk. Ég hlusta á alla. Gamalt fólk, fatlaða, konur og jafnvel útlendinga. Allir hafa eitthvað að segja. Ég hef líka margt að segja. Ég nenni ekki að standa í þessu ókeypis. Ég vil fá góð laun og aðstoðarmann. Ég hef ekki tekið almennilegt frí alla mína ævi. Ég myndi vilja byrja á því.


Facebook