Stöndum vörð um allskonar!

3.sæti: Óttar Proppé

proppe

 

Bóksali og tónlistarmaður

 

Alvara eða dauði!

Stjórnmál koma okkur öllum við. Þeir sem þau stunda hafa áhrif á daglegt líf okkar og bera ábyrgð á bæði stefnumótun og stjórnun á sameiginlegum málum. Undanfarið hefur þróast hjá mér stæk óbeit á stjórnmálum. Sérstaklega hefur tekið sig upp alvarlegt ofnæmi fyrir íslenskri pólitík.

Almenningi hefur skipulega verið úthýst úr pólitík hér á landi. Það hefur myndast einskonar pólitísk yfirstétt. Hana skipa flokksliðar og stuðningsmenn þeirra, nokkrir sjálfstæðir álitsgjafar og útvalið fjölmiðlafólk. Síðan rífst þessi yfirstétt innbyrðis. Hún einokar og þykist eiga alla pólitíska umræðu. Það hefur myndast ákveðinn frasaheimur sem almenningur skilur ekki og og virðist ekki einu sinni ætlað að skilja. Það pirrar mig ósegjanlega að stjórnmálin hafi ratað á þennan klisjuhaug.

Pólitík hefur lokast af inni í flokkunum sem þiggja hundruði milljóna á ári í styrki frá hinu opinbera til að fjármagna sitt starf. Flokkarnir eru orðnir að sjálfstæðum stofnunum sem þrífast ekki síst til að viðhalda sjálfum sér sama hvað á dynur og burtséð frá því hvaða einstaklingar starfa innan þeirra.

Í svona ástandi eru ferskar hugmyndir og nýjar leiðir það síðasta sem á upp á pallborðið. Það er stranglega bannað að hugsa út fyrir kassann af því að aðalmarkmiðið er að viðhalda kassanum og hleypa ekki nema útvöldum inn. Það verða engar samræður því það er enginn til í að hlusta.

Það er merkilegt að sjá annars ljómandi fólk missa sig í heift og útúrsnúningum þegar það ræðir um pólitík. Skilyrðislaus stuðningur við heimaliðið er möst. Það er eins og rökhugsun og víðsýni gufi upp. Einu rökræðurnar sem eru leyfðar eru samþykki eða skítkast. Það að mætast á miðri leið og vinna saman virðist fjarlægt markmið eins og nýleg ummæli stjórnmálaskörungs vitna til; ‚Við hefðum getað náð saman um þetta mál ef þeir hefðu verið reiðubúnir til að gangast undir okkar málflutning‘.

Reglan í pólitískri umræðu er orðin sú að láta aldrei hanka sig á neinu og taka helst ekki skýra afstöðu til neins nema þá helst eigin ágætis eða fásinnu andstæðinganna. Það má aldrei viðurkenna vanþekkingu, undrun eða efa. Það er stranglega bannað að skipta um skoðun. Sá sem skiptir um skoðun viðurkennir að hann hafði einu sinni rangt fyrir sér. Sá sem finnst hann alltaf hafa rétt fyrir sér hefur ekki efni á slíku. Af því að stjórnmál fjalla um mál sem eru í eðli sínu alvarleg hefur þessi einræða verið skilgreind sem hinn ein gildi og grafalvarlegi sannleikur. Alvara eða dauði!

Þessi aðferðarfræði hefur gert íslenskan almenning svo frábitin pólitík að það er ekki lengur fyndið.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég ákvað að taka þátt í framboði Besta flokksins til borgarstjórnar. Ég er í pólitík út af andstöðu, jafnvel andstyggð á pólitík Ég hef alltof lengi leyft mér að leiða stjórnmálin hjá mér og taka ekki þátt. Það er röng afstaða því stjórnmál hafa áhrif á líf okkar allra og það skiptir máli.


Facebook