Stöndum vörð um allskonar!

Best að vera næs!

doktorgunni

Kannski segir umferðamenning Íslendinga eitthvað um okkur. Í umferðinni erum við nefnilega að "taka þátt í samfélaginu" og þá gengur ekki að hugsa bara um sjálfan sig - nema maður sé algjör fáviti. Og stundum finnst manni það. Að maður sé umkringdur eintómum fávitum. Þetta lið gefur ekki stefnuljós, svínar á manni, keyrir yfir á rauðu, stoppar ekki fyrir gangandi vegfarendum - hvað þá hjólandi - og bara öslar áfram eins og það eitt skipti máli í heiminum, eða sé zombíar.

Það er eiginlega stórhættulegt að hjóla í bænum. Flottir og kúl þessir hjólastígar út um allt auðvitað, en þurfi maður að vera innan um bíla borgar sig sko sannarlega að hafa augun opin og aldrei gera ráð fyrir því að fólk stoppi fyrir þér. Ég veit ekki hversu oft ég hef næstum því orðið fyrir bíl, t.d. þegar ég fer yfir aðrein.

Það má kannski reyna, en það er ekki hægt - held ég - að skylda fólk til að vera tillitssamara í umferðinni. Kannski mætti þó til dæmis taka upp þá umferðarreglu að gangandi fólk og hjólandi eigi alltaf réttinn á bíla, a.m.k. í miðbænum. Þannig er það í bænum Northampton í Massachusettes í USA (og örugglega víðar). Northampton er frábær borg. Kurt Vonnegut bjó þarna og þetta er lesbíuhöfuðborg USA, skilst mér. Þarna verða sem sagt ökumenn alltaf að stoppa ef þeir sjá fólk ætla að fara yfir götu í miðbænum. Þetta skapar afslappað og næs andrúmsloft - eða það fannst mér ég skynja þegar ég var þarna í heimsókn 2003. Það er enginn að ösla áfram.

Kannski má koma svona reglum á hér. Á Íslandi væri allavega næs að sjá hugsarfarsbreytingu koma til í umferðinni (og allsstaðar annars staðar líka auðvitað!) Að manni fyndist af athöfnum samborgara sinna að dæma að við værum í sama liðinu. Við, samferðafólk á þessum stað á þessum tíma, erum öll á þessu undarlega ferðalagi saman (sjá nánar: Hótel Jörð). Að ota sínum tota endalaust og tuddast á samborgurum sínum er bara rugl. Eitthvað úrelt 2007 dæmi. Búið.

Hugarfarsbreytingin byrjar auðvitað á manni sjálfum. Ég er alls ekki að segja að ég sé einhver smælandi engill - satt best að segja get ég verið helvítis durgur og það er stutt í vega-tryllinginn (e. road rage) nema ég passi mig. Nú er ég meðvitað að reyna að snúa við blaðinu og er að tjasla mér saman í það að vera alltaf súpernæs og tillitssamur undir stýri. Ef ég rúnta niður Laugarveginn gef ég alltaf öllum séns. Ég stoppa alltaf fyrir fólki við gangbrautir (enda segja umferðarlögin að maður eigi að gera það, þótt fæstir fari eftir því). Ef ég er á aðrein og sé hjól nálgast passa ég alltaf að gefa hjólinu nægt pláss til að komast leiðar sinnar. Ég er á mörg hundruð kílóa málmhlunk og því eðlilegast að ég sýni hámarks aðgát og tillitssemi.

Þegar maður er svona næs brosir hitt fólkið við manni, margir veifa eða kinka kolli, og manni finnst bara innilega eins og maður sé að gera eitthvað rétt. Það er Besta tilfinningin.

Höfundur skipar 11. sæti Besta Flokksins

Facebook   
 

Besti á Twitter

twitterbestiflokkurinn á Twitter