Stöndum vörð um allskonar!

Bestari Framkoma

AevarBréf frá stuðningsmanni

Í miðju kosningafári, líkt og við erum nú stödd í, á fólk það til að verða óþarflega heitt í hamsi, skiptast í fylkingar og síðan etja saman kappi á heiftúðlegan og miskunnarlausan máta. Til að verja sitt fólk taka hinir mismunandi stuðningsmenn oft upp á því að segja særandi hluti hver við annan vegna þess að einhverra hluta vegna er orðinn sjálfsagður hlutur að benda á og helst jagast í flísinni í auga nágrannans. Fólk gerir lítið úr ætlan og ásetningi annarra og atar aur og skít um alla veggi. Á hinum ýmsu umræðuvefjum er það vanalega gert í HÁSTÖFUM.

Fyrir mitt leyti, þá finnst mér ferlega leiðinlegt að horfa upp á það hvernig fólk lætur blammeringar og niðrandi ummæli fljúga vinstri hægri af fullkomnu skeytingarleysi. Ég hef líka svolitlar áhyggjur af því að fólk sé þarna að láta stjórnast af reiði og gremju frekar en skynsemi eða kærleika. Og það er bara ekki fallegt.

Besti flokkurinn aftur á móti kærir sig aðeins um það sem er fallegt. Það indæla og góðhjartaða fólk sem er á lista Besta flokksins er aðallega umhugað um að reyna að rísa ofar þessum leiðindum sem eigað það til að einkenna umræðuna í gegnum tíðina. Besti flokkurinn vill að við njótum þess að vera til, að við njótum þess að takast á við framtíðina, að við séum hamingjusöm, jákvæð og skemmtileg.

Og vitiði hvað?

Að vera skemmtilegur og jákvæður er ekkert svo galin leið til að búa til bestari borg. Það er líka nóg annað sem þarf að gera en að tala illa um aðra.

Þess vegna vil ég, sem Besta flokksstuðningsmaður, biðla til annarra stuðningsmanna og kvenna að vera jákvæðir og gæta hófs í umræðunni. Þegar þið hittið fyrir fólk sem er ekki enn komið í okkar ylhýra og opna faðm, þá skuluð þið frekar sýna þeim skilning, kærleika og hlýju. Bjóðið hinn vangann.

Besti flokkurinn þarf ekki á því að halda að verja sig með því að pota í bágtið hjá hinum, enda viljum við vera bestara fólk en svo.

Það græðir heldur enginn á því að vera vondur við aðra. Nema kannski fólk eins og mannræningjar, geðsjúkir einræðisherrar og nasistar...og ég held að það fólk sofi ekkert sérlega vel á nóttinni.

Jóhann Ævar Grímsson

Handritshöfundur

Facebook   
 

Besti á Twitter

twitterbestiflokkurinn á Twitter