Stöndum vörð um allskonar!

Aðrir pistlar

Aðrir pistlar

Skjaldarmerki

Til hamingju Íslendingar

Besti Flokkurinn óskar Íslendingum öllum innilega til hamingju með 66 ára afmæli lýðveldisins og þjóðhátíðardaginn sinn.

Flokkurinn vonar líka að sem flestir Reykvíkingar sjái sér fært að njóta þeirrar góðu dagskrár sem hið frábæra starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur verið sveitt við að undirbúa og græja, svo borgarbúar geti haft það sem skemmtilegast í dag.

  
 

Aðrir pistlar

doktorgunni

Best að vera næs!

Kannski segir umferðamenning Íslendinga eitthvað um okkur. Í umferðinni erum við nefnilega að "taka þátt í samfélaginu" og þá gengur ekki að hugsa bara um sjálfan sig - nema maður sé algjör fáviti. Og stundum finnst manni það. Að maður sé umkringdur eintómum fávitum. Þetta lið gefur ekki stefnuljós, svínar á manni, keyrir yfir á rauðu, stoppar ekki fyrir gangandi vegfarendum - hvað þá hjólandi - og bara öslar áfram eins og það eitt skipti máli í heiminum, eða sé zombíar.

Það er eiginlega stórhættulegt að hjóla í bænum. Flottir og kúl þessir hjólastígar út um allt auðvitað, en þurfi maður að vera innan um bíla borgar sig sko sannarlega að hafa augun opin og aldrei gera ráð fyrir því að fólk stoppi fyrir þér. Ég veit ekki hversu oft ég hef næstum því orðið fyrir bíl, t.d. þegar ég fer yfir aðrein.

Það má kannski reyna, en það er ekki hægt - held ég - að skylda fólk til að vera tillitssamara í umferðinni. Kannski mætti þó til dæmis taka upp þá umferðarreglu að gangandi fólk og hjólandi eigi alltaf réttinn á bíla, a.m.k. í miðbænum. Þannig er það í bænum Northampton í Massachusettes í USA (og örugglega víðar). Northampton er frábær borg. Kurt Vonnegut bjó þarna og þetta er lesbíuhöfuðborg USA, skilst mér. Þarna verða sem sagt ökumenn alltaf að stoppa ef þeir sjá fólk ætla að fara yfir götu í miðbænum. Þetta skapar afslappað og næs andrúmsloft - eða það fannst mér ég skynja þegar ég var þarna í heimsókn 2003. Það er enginn að ösla áfram.

  

Nánar...

 

Aðrir pistlar

Aevar

Bestari Framkoma

Bréf frá stuðningsmanni

Í miðju kosningafári, líkt og við erum nú stödd í, á fólk það til að verða óþarflega heitt í hamsi, skiptast í fylkingar og síðan etja saman kappi á heiftúðlegan og miskunnarlausan máta. Til að verja sitt fólk taka hinir mismunandi stuðningsmenn oft upp á því að segja særandi hluti hver við annan vegna þess að einhverra hluta vegna er orðinn sjálfsagður hlutur að benda á og helst jagast í flísinni í auga nágrannans. Fólk gerir lítið úr ætlan og ásetningi annarra og atar aur og skít um alla veggi. Á hinum ýmsu umræðuvefjum er það vanalega gert í HÁSTÖFUM.

Fyrir mitt leyti, þá finnst mér ferlega leiðinlegt að horfa upp á það hvernig fólk lætur blammeringar og niðrandi ummæli fljúga vinstri hægri af fullkomnu skeytingarleysi. Ég hef líka svolitlar áhyggjur af því að fólk sé þarna að láta stjórnast af reiði og gremju frekar en skynsemi eða kærleika. Og það er bara ekki fallegt.

Besti flokkurinn aftur á móti kærir sig aðeins um það sem er fallegt. Það indæla og góðhjartaða fólk sem er á lista Besta flokksins er aðallega umhugað um að reyna að rísa ofar þessum leiðindum sem eigað það til að einkenna umræðuna í gegnum tíðina. Besti flokkurinn vill að við njótum þess að vera til, að við njótum þess að takast á við framtíðina, að við séum hamingjusöm, jákvæð og skemmtileg.

Og vitiði hvað?

Að vera skemmtilegur og jákvæður er ekkert svo galin leið til að búa til bestari borg. Það er líka nóg annað sem þarf að gera en að tala illa um aðra.

Þess vegna vil ég, sem Besta flokksstuðningsmaður, biðla til annarra stuðningsmanna og kvenna að vera jákvæðir og gæta hófs í umræðunni. Þegar þið hittið fyrir fólk sem er ekki enn komið í okkar ylhýra og opna faðm, þá skuluð þið frekar sýna þeim skilning, kærleika og hlýju. Bjóðið hinn vangann.

Besti flokkurinn þarf ekki á því að halda að verja sig með því að pota í bágtið hjá hinum, enda viljum við vera bestara fólk en svo.

Það græðir heldur enginn á því að vera vondur við aðra. Nema kannski fólk eins og mannræningjar, geðsjúkir einræðisherrar og nasistar...og ég held að það fólk sofi ekkert sérlega vel á nóttinni.

Jóhann Ævar Grímsson

Handritshöfundur

  
 

Aðrir pistlar

Maðurinn sem vissi of lítið

Ég hef ekki mikla trú á Jóni Gnarr sem stjórnmálamanni. Hann hefur enga reynslu og enga athyglisgáfu. Dómgreind hans er á reyki og hann skiptir um skoðanir eins og nærbuxur.

Það hljómar aðeins of mikið eins og þau sem þegar eru við stjórn.

En það er þó einn meginmunur á Jóni og hinum. Jón er nörd (þó hann standi í þeirri meiningu að hann hafi bara einu sinni verið nörd, þá er hann það enn. Treystið mér, ég er sérfræðingur.) Stjórnmálamenn hinsvegar, eru í flestum tilfellum lúðar. Ekki nördar. Það er munur þar á.

Horfum á þetta út frá stéttaskiptingu gagnfræði- og menntaskóla. Nördar eru andstæðan við kúl liðið. Kúl liðið er félagslega hæft og er alltaf í sleik og geta alltaf reddað áfengi. Nördar aftur á móti, eru ekki nógu félagslega þroskaðir til að fatta hvernig á að vera kúl. Þeir vita ekki hvað það er.

Lúðar eru eins og nördar, nema lúðar eru að reyna að vera kúl. Þeir nota lúðalegar leiðir til þess að verða kúl, eins og til dæmis að bjóða sig fram í nemendaráð.

"Æ ég fæ aldrei að ríða og mér er aldrei boðið í partý. Hey ég veit, ég býð mig fram sem gjaldkera nemendaráðs".

Þannig hugsa stjórnmálamenn. Kannski í upphafi hafa þeir einhverjar hugsjónir um bættan þjóðarhag, en það breytist undantekningarlaust. Pólitík er ótemja sem bugar knapann. Að lokum er það kerfið sem stjórnar manninum, ekki öfugt eins og ætlunin var. Horfið bara í augun á stjórnmálamönnum sem segja af sér. Þau eru bauguð af uppgjöf.

Vald er líka fíkniefni. Og lúðar eru ginnkeyptir fyrir slíku, enda halda þeir að dóp sé kúl.

Jón Gnarr er nörd. Hann hefur ekki þetta lúða-element sem er akkilesarhæll stjórnmálamanna. Hann er ekki nógu félagslega var um sig til að spillast. Hann er eins og Bill Murray í The Man Who Knew Too Little. Veit ekkert hvað er að gerast en verður hetja fyrir vikið.

Eins og ég sagði í upphafi, þá hef ég litla trú á Jóni sem stjórnmálamanni. En lítil trú er margfalt meiri en sú sem ég hef hingað til haft á stjórnmálamönnum.

 

Hugleikur Dagsson.

 

 

  
   

Besti á Twitter

twitterbestiflokkurinn á Twitter