Stöndum vörð um allskonar!

Maðurinn sem vissi of lítið

Ég hef ekki mikla trú á Jóni Gnarr sem stjórnmálamanni. Hann hefur enga reynslu og enga athyglisgáfu. Dómgreind hans er á reyki og hann skiptir um skoðanir eins og nærbuxur.

Það hljómar aðeins of mikið eins og þau sem þegar eru við stjórn.

En það er þó einn meginmunur á Jóni og hinum. Jón er nörd (þó hann standi í þeirri meiningu að hann hafi bara einu sinni verið nörd, þá er hann það enn. Treystið mér, ég er sérfræðingur.) Stjórnmálamenn hinsvegar, eru í flestum tilfellum lúðar. Ekki nördar. Það er munur þar á.

Horfum á þetta út frá stéttaskiptingu gagnfræði- og menntaskóla. Nördar eru andstæðan við kúl liðið. Kúl liðið er félagslega hæft og er alltaf í sleik og geta alltaf reddað áfengi. Nördar aftur á móti, eru ekki nógu félagslega þroskaðir til að fatta hvernig á að vera kúl. Þeir vita ekki hvað það er.

Lúðar eru eins og nördar, nema lúðar eru að reyna að vera kúl. Þeir nota lúðalegar leiðir til þess að verða kúl, eins og til dæmis að bjóða sig fram í nemendaráð.

"Æ ég fæ aldrei að ríða og mér er aldrei boðið í partý. Hey ég veit, ég býð mig fram sem gjaldkera nemendaráðs".

Þannig hugsa stjórnmálamenn. Kannski í upphafi hafa þeir einhverjar hugsjónir um bættan þjóðarhag, en það breytist undantekningarlaust. Pólitík er ótemja sem bugar knapann. Að lokum er það kerfið sem stjórnar manninum, ekki öfugt eins og ætlunin var. Horfið bara í augun á stjórnmálamönnum sem segja af sér. Þau eru bauguð af uppgjöf.

Vald er líka fíkniefni. Og lúðar eru ginnkeyptir fyrir slíku, enda halda þeir að dóp sé kúl.

Jón Gnarr er nörd. Hann hefur ekki þetta lúða-element sem er akkilesarhæll stjórnmálamanna. Hann er ekki nógu félagslega var um sig til að spillast. Hann er eins og Bill Murray í The Man Who Knew Too Little. Veit ekkert hvað er að gerast en verður hetja fyrir vikið.

Eins og ég sagði í upphafi, þá hef ég litla trú á Jóni sem stjórnmálamanni. En lítil trú er margfalt meiri en sú sem ég hef hingað til haft á stjórnmálamönnum.

 

Hugleikur Dagsson.

 

 

Facebook   
 

Besti á Twitter

twitterbestiflokkurinn á Twitter