Stöndum vörð um allskonar!

11.sæti: Gunnar Lárus Hjálmarsson

doktorgunni

Neytendafrömuður

Það sem er grætilegast við hrunið og það krapp allt, er hversu hryllilega mikið klúður það er. Því þrátt fyrir allt er Ísland gullkista. Höfin full af fiski og landið af orku. Vor fósturjörð er næstum eins og paradísareyja í Kyrrahafinu þar sem menn komast upp með að teygja sig eftir ávexti úr hengirúmi eða skutla í fisk á mittisskýlu og þurfa lítið annað að dútla þann daginn. Þar sem homo sapiens er óttalegur fáviti, ekki bara á Íslandi, hefur aldrei verið hægt að viðhalda fullkomnu ástandi mjög lengi. Á Páskaeyju í Kyrrahafinu, sem var paradísareyja en er nú trévana rokrassgat, fóru hópar manna í keppni um hver gæti reist fleiri risahausa. Öll orkan og allar auðlyndir þjóðarinnar fóru í þetta rugl, svipað og hér þar sem öll orkan fór í risahausinn "hagnaður á fyrsta ársfjórðungi". Öfugt við íslensku risahausana, sem "fóru til peningahimna", standa þó Páskaeyjuhausarnir enn og glápa bjánalegir út á haf.

Í Reykjavík hafa eintómir risahausasmiðir verið við völd sl. ár. Hæstu hæðum náði ruglið á Kjarvalsstöðum 24. jan 2008. Nema það hafi verið í risarækjueldi Orkuveitunnar - og hey! - Er Alfred enn að spá eitthvað í hátæknisjúkrahúsið?

Sumir halda að það sé bara of leiðinlegt fyrir skemmtilegt fólk að vera í borgarstjórn. Auðvitað verður það leiðinlegt ef það er gert með því attitjúdi að það sé leiðinlegt. En það fer auðvitað enginn í djobbið með það attitjúd. Þetta er spurning um viðhorf og getur átt við allt. Annað sem getur til dæmis verið leiðinlegt er að létta sig. Þegar þú ert orðinn alltof feitur og líður ekki vel og verður bara að ná af þér aukahlassinu - alveg eins og borgin og landið þarf á almennilegu aðhaldi og átaki að halda - ferðu náttúrlega ekki í það verkefni með því attitjúdi að djöfull verði þetta nú ógeðslega leiðinlegt. Nei, þú gengur til verks með niðurstöðuna lauslega formaða í kollinum (a la Secret), velur þér skyrtu sem þú ætlar þér að komast í einn daginn, gerir svo það sem þarf að gera, brennir af þér spikinu og passar að éta það ekki allt á þig aftur jafnóðum, og - Taktu nú vel eftir, þetta er mikilvægt: ÞÁ ERTU MEÐ GÓÐA TÓNLIST Í EYRUNUM Á MEÐAN ÞÚ BRENNIR!!! Þú leggur jafnvel mikla vinnu í að búa til kraftmikil mixteip fyrir átökin. Þótt gamli hljómborðsleikarinn í Ensími sé í Samfó og Gísli Marteinn hafi séð um Stuðmannaspurningakeppni er það ekkert upp í tónlistarmannauð BF. Ég skyldi áhyggjur fólks með BF ef það væru eintómir fábjánar í framboði fyrir flokkinn, en ég bara næ því ekki hvernig þetta lænöpp getur farið svona í taugarar á sumu fólki (reyndar hverfandi fáum, sýnist mér, miðað við skoðanakannanir). Er þetta ekki bara einhver hræðsla við hið ókunna? Einhver ónotatilfinning um að allt verði ekki aftur eins og það var? Hræðsla við breytingar? Við þetta fólk segi ég: Ekki vera hrædd. Þetta verður allt í lagi. Nei, þetta verður miklu betra en "allt í lagi". Þetta verður Best.


Facebook