Stöndum vörð um allskonar!

5.sæti: Karl Sigurðsson

karlsig

Tölvunarfræðingur og tónlistarmaður

Þegar Jón kom fyrst að máli við mig og spurði hvort ég vildi vera með í framboði til borgarstjórnarkosninga í vor var mín fyrsta spurning: "Hvað felst í því?" Hann svaraði: "Það á að vera gaman."

Og það var strax gaman. Frá fyrsta degi. Og þegar í ljós kom hvers konar snillingar voru með í framboðinu varð jafnvel enn meira gaman. Fljótlega tók framboðinu að vaxa fiskur um hrygg og hugmyndafræði farin að myndast í hópnum. Og enn var gaman. Þegar framboðslistinn var svo kynntur og framboðið tilkynnt til kjörstjórnar fór ég að átta mig á alvöru málsins: Ég var kominn í þá stöðu að ég gæti - ef allt gengi vel - lent í því að verða fulltrúi í borgarstjórn Reykjavíkur. Eða allavega varaborgarfulltrúi. En samt var gaman.

Eftir því sem meðbyr Besta flokksins jókst í könnunum komu æ fleiri vinir og kunningjar til mín (flestir kunnugir og/eða tengdir stjórnmálum á einn eða annan hátt) og spurðu mig hvort ég treysti mér í alvöru í þetta starf. Það væri svo flókið að ég þyrfti að hafa mig allan við til að skilja viðfangsefnin, það væri svo tímafrekt að ég gæti ekki gert neitt annað í fjögur ár og það krefðist gríðarlegra hæfileika og reynslu í að starfa með öðrum.

Undanfarið hef ég því verið að velta fyrir mér hvers konar ofurmenni það eru eiginlega sem ákveða að takast á við þetta gríðarlega vandasama starf. Og þá fór ég að efast.

Ég er nefnilega ekki viss um að B.S. gráða í tölvunarfræði dugi til að skilja flókna hluti. Og þó ég hafi undanfarin ár verið í fullu starfi sem tölvunarfræðingur, að hluta sem tónlistarmaður og sinnt ýmiss konar öðrum verkefnum meðfram því þýðir það ekkert endilega að ég ráði við annríkið sem fylgir setu í borgarstjórn. Hvað þá að ég sé nógu hæfur að starfa með öðrum þrátt fyrir 14 ár í kór og síðan 5 ár í hljómsveit og vinnu með leikhópi.

"Nei, það hlýtur að vanta eitthvað uppá hjá mér," hugsaði ég. "Til dæmis einhvers konar ofurmannlega eiginleika, uppeldi í ungliðahreyfingu stjórnmálaflokks og djúpa þekkingu á krókum og kimum kerfisins. Að ég tali nú ekki um reynsluna."

Samt er bara svo gaman í Besta flokknum.

Eins gott að ég hef horft á The Wire.


Facebook