Stöndum vörð um allskonar!

7.sæti: Páll Hjaltason

PallHjaltason

 

Arkitekt

 

Gömul hús og rótgróin byggð gefa borgum dýpt og sögu, auk þess sem hún færir okkur borgurunum mikilvæga tengingu við fyrri tíma. Gamla byggðin geymir í sér mælikvarða, upplýsingar um handverk, sögur og minningar.

Flestallir eru sammála um að þétta þurfi byggð í miðbænum en á sama tíma eigi að vernda byggingararfinn. Þetta geta að sjálfsögðu verið andstæð sjónarmið og tryggja þarf að nýbyggingar gangi ekki um of á gömlu byggðina.

Húsverndarmál hafa hins vegar verið lengi í mjög öruggum farvegi og fyrir löngu búið að varða þau gömlu hús sem hafa eitthvað menningargildi. Stofnanir eins og Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur, Húsafriðunarnefnd, Mynjasafn Reykjavíkur, og Fornleifanefnd hafa verið lengi við líði og unnið gott starf.

Ég var að fara yfir það í huganum fyrir þennan fund hvort einhverjar sögulegar byggingar hefðu verið rifnar eða illa skemmdar síðustu áratugi. Ég mundi ekki í svipinn eftir neinu nema Fjalakettinum og nokkrum eldsvoðum.

Auðvitað á að halda í sem mest af okkar byggingararfi en það er einfaldlega þannig að á öllum tímum eru byggð góð og slæm hús. Góðu húsin eiga að standa áfram en hin eiga að fá að víkja fyrir nýjum. Þannig byggjum við borg. Það á að vera metnaður allra að nýbyggingar í miðbæ Reykjavíkur henti vel fyrir þá starfsemi sem þær eru byggðar fyrir og virði mælikvarða umhverfisins. En líka að þær séu verðugir fulltrúar síns tíma.

Hinsvegar, þegar stefnan er orðin sú að halda í allt gamalt og auk þess að byggja ný hús með útliti þeirra gömlu erum við komin á vafasama braut. Ætlum við að búa til borg þar sem nýbyggingarnar eru eftirlíkingar að gömlum húsum? Hvað sögu mun sú borg segja framtíðinni. Byggingar eru ekki leiktjöld. Saga og andi borgarinnar er skráður í húsin. Það er ekki í lagi að falsa söguna.

Uppgjöf borgarinnar gagnvart öfgafriðunum voru greinileg í kaupum hennar á Laugaveg 4-6 og klisjukenndri uppbyggingu á brunareitnum á horni Lækjartorgs. Hvað á svo að vera í þessum húsum? Fleiri öldurhús og ferðamannabúðir? Þessi ævintýri munu kosta okkur Reykjvikinga milljarða sem væru betur nýttir annars staðar.

Gott dæmi um rangar áherslur í húsafriðun er þegar Reykjavíkurborg seldi Heilsuverndarstöðinina í hendur spákaupmanna. Einn helsta gimstein borgarinnar. Það meistarastykki er í núna í mikilli hættu og óafturkræft menningarslys í uppsiglingu. Það er ekki nóg að horfa bara á það sem er gamalt.

Það er augljóst að miðborg Reykjavíkur er í tilvistarkreppu. Almenn verslun og þjónusta þrífst illa í óhentugu húsnæði og eina gróskan eru ódýrar ferðamannabúðir.

Það sem dafnar best í miðborginni eru ölduhúsin. Það er ekki alslæmt að Reykjavík sé vinsæl skemmtanaborg en opnunartími öldurhúsa ásamt hrikalegri umgengni hefur gert innsta hring miðbæjarinns í raun óíbúðarhæfann. Þetta þarf að laga.

 

Tölur sýna að fjölskyldufólk og eldri borgarar sækja ekki lengur í miðbæinn. Þar með hættir hann að vera miðborg allra landsmanna og verður einhverskonar “gamli bær”, ferðamanngildra með með öflugu næturlífi.

Vandi miðborgarinnar lagast ekki með því að auka húsafriðun heldur þarf að hugsa borgina upp á nýtt. Miðborgin er almenningsrými sem þarf að kortleggja og skilgreina. Með meiri áherslu á götur, torg og opin almenningssvæði en hefur tíðkast.

Tryggja þarf að gott aðgengi sé fyrir alla að verslun og þjónustu í miðbænum. Það er í dag eingöngu um 5% þess húsnæðis við Laugaveginn með hjólastólaaðgengi. Það er ekki í lagi.

Rannsaka þarf starfsemi og mannlíf miðborgarinnar og fá þannig grunn til að taka marvissar ákvarðanir um uppbyggingu. Hvað virkar í dag og hvað ekki? Hvaða breytingar eru að gerast í miðborginni og af hverju?

Hvaða starfsemi saknar fólk úr miðbænum? Er til dæmis hægt að skipuleggja klasa í miðbænum þar sem hinar skapandi stéttir eru meira sýnilegar? Af hverju er Hönnunarsafn Íslands, Kvikmyndasafn Íslands og Tónlistarsafn Íslands ekki í miðbæ Reykjavíkur? Er hægt að lífga við Hljómskálagarðinn með því að flytja þangað hús úr Árbæjarsafni.

Nú er tækifæri til að staldra við og velta upp bæði nýjum og gömlum hugmyndum.

Í kjölfarið þarf síðan að laða markvisst að fjölbreyttari starfsemi í miðborgina, þannig að allir hafi eitthvað þangað að sækja.

Menntun

Menntaskólinn í Reykjavík.

University of Liverpool, England, School of Architecture.(BA)

Scholae de Lorenzo de Medici, Flórens, Ítalíu, kvikmyndagerð og höggmyndalist.

Columbia University, GSAPP, New York, NY, USA. (MA)

 

Starfsferill

Ýmsar teiknistofur í New York 1987-1989

Meðeigandi í arkitektastofu , UT architects, í New York 1989-1991.

Starfað sjálfstætt í Reykjavík frá 1991 -2001

Meðeigandi í arkitektastofunni M3 arkitektar 2001-2004.

Meðeigandi í arkitektastofunni +Arkitektar frá 2004 til dagsins í dag.


Facebook