Stöndum vörð um allskonar!

9.sæti: Sigurður Björn Blöndal

sbblondal

Fyrrv. sérfræðingur

Besti borgarinn

Ég hef fylgst með stjórnmálum af hliðarlínunni hingað til. Ég hef í gegn um tíðina kynnst nokkrum stjórnmálamönnum og svo var pabbi minn virkur í þessu áður fyrr. Þetta hefur verið ágætis fólk, oft hresst og skemmtilegt á mannamótum.

Mig hefur aldrei langað neitt sérstaklega til að vera í pólitík. Pabbi minn var einhverntíma varaþingmaður og sagði mér að það væri leiðinlegasta starf sem hann hefði unnið.

En nú er ég komin á framboðslista Besta flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar, skipa 9. sæti og svo gæti farið að ég væri á leið í borgarstjórn. Og þá vaknar spurningin hvort ég hafi eitthvað þangað að gera?

Ég hef unnið við allskonar, verið verslunarmaður, tónlistarmaður, blaðamaður, skólaliði, verkamaður, sjómaður, sérfræðingur, kvikmyndagerðamaður, markaðsstjóri, framkvæmdastjóri prentsmiðju, rútubílstjóri, ruslahreinsunarmaður og líklega eitthvað fleira. Ég á tvö börn, sem eru í skóla, og hafa verið í leikskóla. Sambýliskona mín er menntaskólakennari. Ég er ekki með stúdentspróf, en ég er með meirapróf og skotveiðileyfi.

Ég hef unnið með alskonar fólki, mörgu mjög skemmtilegu. Mér hefur yfirleitt gengið ágætlega að lynda við aðra og held að mér hafi yfirleitt tekist ágætlega upp við það sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Mér finnst líka mikilvægt að hafa gaman af því sem ég geri.

Besti flokkurinn er ekki hefðbundinn stjórnmálaflokkur. Besti flokkurinn er hugsunarháttur. Hugsun um að geta geta breytt hlutum til hins betra og hafa gaman af. Í Besta flokknum erum við ekki hrædd við að viðurkenna að við vitum ekki allt. Við þorum að leita okkur ráðgjafar og við erum tilbúin til að hlusta. Og með það að leiðarljósi tel ég mig geta gert gagn í borgarstjórn og mun gera mitt besta.

X-Æ, 29. maí

S. Björn Blöndal


Facebook