Stöndum vörð um allskonar!

19.sæti: Jörundur Ragnarsson

Jorundur_Ragnarsson

Leikari

Þegar Jón bað mig fyrst um að fara í framboð fyrir Besta flokkinn spurði ég hann: “Afhverju? Afhverju færðu ekki Matthías Bjarnason eða einhvern svoleiðis sem veit fullt um svona?” Jón sagði að Matthías væri orðinn gamall og ég væri leika í vinsælum sjónvarpsþáttum og þá myndi ég fiska mörg atkvæði “Ég? En Jón..., ég er ekki stjórnmálamaður, ég er leikari. Leyfðu mér að hugsa málið.”

Svo ég fór heim og gúgglaði “ráðherra” og “stjórnmálamenn” og svoleiðis. Þá komst ég að því að allskonar fólk er í framboði fyrir hina og þessa flokka og allskonar fólk sem veit ekkert um hvernig á að vera stjórnmálamaður. Alveg eins og ég. Ég hef samt eitt fram yfir marga. Ég get alveg leikið þannig mann. Ég hef leikið þroskaheftan mann, bensínafgreiðslumann, lagerstarfsmann og tenglahönnuð og allskonar fleiri. Afhverju ekki stjórnmálamann. Fullt af fólki trúði mér í hinum hlutverkunum, sumir héldu meira að segja að ég væri í alvöru þroskaheftur þegar ég lék það hlutverk. Samt er ég ekki þroskaheftur.

Alþingi, borgarstjórn og svoleiðis er alveg eins og leikhús, fólk heldur ræður sem það lærir utanaf (handrit) , fer í jakkaföt og dragtir (búningur) og heldur sig til, greiðir sér og málar sig og svoleiðis(smink). Svo er einn sem stjórnar flokknum sem maður er í sem er eins og leikstjóri (Jón Gnarr).

“Ég get þetta alveg” hugsaði ég. En þá fór ég að pæla í öðru. Afhverju ætti ég að gera þetta, hvað græði ég á því? Verð ég að hætta að leika? Hætta í leikhúsi og sjónvarpi?

Jón fullvissaði mig um að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því. Ef ég fæ vinnu í sjónvarpi eða leikhúsi þá má ég láta það ganga fyrir og þarf ekki að mæta á fundi og svoleiðis. Geri það bara ef ég tíma. Samt fæ ég laun sem borgarráðsmaður eða alþingismaður og kannski seinna ráðherra. Ég er líka mun líklegri til að fá styrki frá borginni og kannski seinna meir leiklistarráði til að setja upp mitt eigið leikhús. Jón ætlar líka að reyna gera aðgang minn greiðari að Kvikmyndasjóð Íslands.

Ég tók ákvörðun um að fara í framboð og hér er ég kominn. Ég mun gera allt sem ég get til að framfylgja stefnu Besta Flokksins í einu og öllu.* Ég mun berjast fyrir jafnrétti, virðingu, jákvæðni, réttlæti, kærleika, frelsi, ábyrgð, sjálfbærni, lýðræði, framsækni, trausti, jákvæðni,og heiðarleika!!! * *

 

Besti flokkurinn er besti flokkur sem ég veit um!!

 

Afhverju að velja næstbest þegar þú getur valið best?

 

Ég veit það ekki…. Hvað með þig?

 

*(nema ég sé upptekinn)

**(nema ég sé upptekinn)


Facebook