Stöndum vörð um allskonar!

16.sæti: Hjördís Sjafnar Ingimundardóttir

Besta Hjördís Sjafnar

Vöruþróunarstjóri

Ég er ekki grínisti!

Framboð Besta flokksins hefur farið hátt undanfarið og sitt sýnist hverjum eins og gefur að skilja þegar umræða um stjórnmál er annars vegar.

Þegar skoðaðar eru nýlegar kannanir um fylgi flokkanna kemur berlega í ljós að kallað er eftir breytingum frá því sem verið hefur. Eðlilega. Þetta sýnir fylgi hins unga og síkáta Besta flokks svo ekki verður um villst. Besti flokkurinn er, þrátt fyrir ungan aldur, hlaðinn reynslu þeirra sem að honum standa, hann gengur fyrir afli umbreytinga, blæs frá sér kjarki og gefur leyfi til að hugsa hlutina upp á nýtt. Besti flokkurinn stundar heiðarleg stjórnmál og skemmtileg. Hann kynnir nýjar og ferskar áherslur og boðar öðruvísi Reykjavík - allskonar Reykjavík.

Það felast tækifæri í því að komast til valda í batteríi eins og borginni. Því fylgir einnig ábyrgð. Frambjóðendur Besta flokksins vita að öllu gamni fylgir nokkur alvara.

Mig langar að leggja að kjósendum að líta til baka spyrja sig hvort þeirra þörfum hafi verið mætt af núverandi borgarstjórn, hverjar svo sem þær kunna að hafa verið. Hefur einhver talað þínu máli, hafa þau málefni sem verið hafa í forgrunni átt samhljóm með því sem hefur verið ofarlega á baugi hjá þér og þínum? Er einhver að hlusta?

Besti flokkurinn hlustar á fólk, menn og líka konur. Þess vegna mun nýr og kynbættur framboðslisti Besta flokksins verða kynntur föstudaginn 7. maí. Mun þá enn bætast í góðan flokk fólks sem er í stakk búið að umfaðma Reykjavík og byggja upp samfélag þar sem fólki má meira að segja langa til að geta skoðað ísbjörn... og hafa gaman. Það er kominn tími á breytingar, það eru nýir tímar. Við stöndum frammi fyrir því að horfast í augu við breyttar aðstæður og við megum ulla á þá sem vilja slá Besta flokkinn út af borðinu sem eitthvað djók.

Hjördís Sjafnar Ingimundardóttir

Frambjóðandi Besta flokksins í Reykjavík


Facebook