Stöndum vörð um allskonar!

14.sæti: Þorsteinn Guðmundsson

Besti Þorsteinn GUðmundsson

Leikari

Ég hef ákveðið að láta bjóða mig upp í 14. sæti á lista Besta flokksins í Reykjavík. Ég er ekki hálfviti, ég hef aldrei kýlt neinn, oft snyrtilegur til fara, kvæntur konu sem passar að ég geri engar vitleysur, stundvís og kattþrifinn.

Í þessu framboði kemur reynsla mín sem bæjarstarfsmaður mér til góða. Ég vann sem bæjarstarfsmaður fyrir um tuttugu árum (þegar Sálin hans Jóns míns var vinsæl), ók um á grænum Land Rover jeppa og píndi menntaskólabörn til þess að slá tún á umferðareyjum og í görðum gamalmenna sem höfðu ekki líkamsstyrk til þess að ýta á undan sér sláttuvél. Yfirleitt voru þessi gamalmenni þakklát og gáfu okkur snúða en auðvitað þekki ég líka skuggahliðar gamla fólksins, hvernig það getur verið kvartsamt og illa lyktandi.

Seinna starfaði ég á vegum ÍTR við að hafa ofan af börnum á sumrin, fara með þau í sund, kenna þeim að einelti er ekki skemmtilegt fyrir þann sem fyrir því verður (þó að aðrir geti fengið heilmikið úr út því), mikilvægi þess að fara varlega í umferðinni og að hestar eru ekki með mótor. Allt svona frekar basic hlutir en verður samt sem áður að brýna fyrir börnum vegna þess að yfirleitt eru þau fullkomlega stupid.

Ég hef ekki kynnt mér öll þau stefnumál sem Besti flokkurinn berst fyrir en ég er viss um að þau eru öll rosalega fín. Kynni mín af öðrum frambjóðendum eru til hreinnar fyrirmyndar. Jón Gnarr þekki ég frá fornu fari og mæli með hans hreina hjarta og göfuga hug, Kalli í Baggalúti er frændi minn og kemur af afskaplega góðu fólki (sérlega er Bergljót móðir hans vönduð kona og ég býst við að Siggi, pabbi hans sé allt í lagi þó að hann virki skrítinn við fyrstu sýn). Allt er þetta mikið eðalfólk.

Ég hef ýmsar hugmyndir til að bæta borgina en enn sem komið er hef ég ekki komið þeim á framfæri við neinn. Reyndar stóð ég fyrir Facebook síðu á internetinu fyrir um ári síðan sem bar heitið Menningargatan Laugavegur og gekk út á þá grunnhugmynd að fylla Laugaveginn af menningarviðburðum, daginn út og inn og draga þannig ferðamenn til landsins. Mörg þúsund manns studdu þessa hugmynd. Ég sendi í kjölfarið bréf á alla borgarfulltrúa og vakti athygli á þessu máli en viðbrögðin voru frekar dræm og var ákveðið í framhaldinu að setja frekar sextán billjarða af peningum borgarbúa til þess að reisa Tónlistarhöll úr tékkneskum kristal í Reykjavíkurhöfn. Ég kalla þessa tónlistarhöll ræpukúk og hvet fólk til þess að setja peninga frekar í fólk í framtíðinni en tóma steypu.

Í kosningarbaráttunni hefur verið mikið talað um kosningarloforð Besta flokkins að bjóða upp á ísbjörn í Húsdýragarðinum. Það er auðvitað skemmtileg hugmynd og í anda þeirrar málfræðilegu þverstæðu að bjóða alltaf upp á ísbjörn í söfnum sem bera ótengd nöfn, en eins og kunnugt er þá er ísbjörn ekki húsdýr. Ekki frekar en hann er sædýr en eins og elstu menn muna þá voru vistaðir tveir geðveikir ísbirnir í Sædýrasafninu í Hafnarfirði fyrir nokkrum áratugum síðan. Þeir undu sínum hag illa og gengu í hringi allan daginn (ekki ósvipað og nokkir Hafnfirðingar sem ég þekki).

En verði þetta loforð að veruleika þá langar mig í framhaldi til þess að stinga upp á að það verði fenginn skógarbjörn í Öskjuhlíðina. Þar gæti hann gengið sjálfala og lifað á Maarud snakki sem fólk hendir mikið af þar og kanínum sem nóg er af. Kanínukjöt er gríðarlega næringarríkt. Svo gæti hann virkað sem spennuvaki fyrir hommana sem hittast þarna (margir hommar hafa gaman af spennudrifnu kynlífi) og síðast en ekki síst væri fyndið að sjá hann elta uppi erlenda ferðamenn.

Ég vona að þú kjósir Besta flokkinn í næstu kosningum. Ef þér líst illa á mig bendi ég þér á að strika mig út af listanum (ég veit um fullt af fólki sem ætlar að gera það og ég skil það alveg).

Exæææ!


Facebook