Stöndum vörð um allskonar!

Brýr

Besti gondólinn

Á hverjum morgni, eftir að ég hef komið syni mínum á leikskóla, tek ég röskan göngutúr í kringum Tjörnina. Svo kom sunnudagur. Það er enginn leikskóli á sunnudögum. Afhverju ekki? Ég veit það ekki. Kannski fara allar fóstrur í messu. Kannski vilja þær bara sofa út. En ekki ég. Ég þurfti að vakna með syni mínum. Af gömlum vana keyrði ég með hann á leikskólann. Þar kom ég að læstum dyrum. Ég bankaði á allar hurðir og hringdi en fékk ekkert svar. Það var eins og byggingin hefði verið rýmd. Ég gægðist á gluggann. Þá heyrði ég öskur og drykkjulæti frá Tjörninni. Strákurinn varð hræddur. Ég róaði hann og sagði honum að þetta væru örugglega bara fullir kallar. Við gengum niður að Tjörn. Þar höfðu nokkrir Grænlendingar ákveðið að kæla sig niður eftir svall næturinnar og fá sér sundsprett með öndunum. Þeir svömluðu naktir hver innan um annan og slógust. Ég kastaði kveðju á þá og sagðist alltaf hafa langað að koma til Grænlands. Við fórum að spjalla saman. Þeir komu mér mikið á óvart. Þeir voru ekki villimenn.

Einn af þeim var meira að segja með stúdentspróf. Þeir löptu ekki drullugt vatnið út Tjörninni heldur drukku þeir vodka úr flöskum eins og siðmenntaðir menn. Þeir töluðu ágæta ensku. Einn þeirra benti á brúnna yfir Skothúsveg og sagði að svona ljót brú yrði aldrei byggð í Nuuk. “Afhverju eruð þið ekki fyrir löngu búin að sprengja hana í loft upp?” spurði annar. Þá fór ég að segja þeim frá Besta flokknum og hvað allir á Íslandi væru spenntir fyrir honum og hugmyndum flokksins um að byggja nýja brú yfir Skothúsveg. Þeir hlógu mikið af hugmyndum mínum. Þeir skildu ekki þörfina fyrir brú. Þeim fannst mikið eðlilegra að nota bílaferju. Ég spurði þá hvað þeim fynndist um þá hugmynd að grafa síki frá höfninni, gegnum Lækjargötu og að Tjörninni og frá Tjörninni, meðfram flugvellinum og út í Ægissíðu. Þeim leist ekkert á það í fyrstu en þegar ég sagði þeim að hugmyndin væri að láta gondóla sigla um síkið breyttist viðmót þeirra snögglega. Gondólar eru nefnilega ekki til á Grænlandi. Heldur ekki froskar.

Skipulagsmál eru öllum hugleikin. Allir hafa skoðun á skipulagi. Að skipuleggja er list. Margt fólk kemur saman og samræmir skoðanir sínar til verka. Hver einstaklingur leggur fram krafta sína til velfarnaðar heildarinnar. Hópur er heiðarleiki. En hópur er líka hagsæld. Hver einstaklingur á rétt. Skjólstæðingar okkar eru borgarbúar. Ekki eru allir menntaðir en allir hafa tilfinningar og rétt til að tjá þær. Allir hafa rétt til vinnu og rétt til að fara í sund og gufu án þess að þurfa að burðast með blaut handklæði. Allir fá ókeypis í strætó. Innan strætisvagna eiga að vera kaffihús og bókabúðir þar sem menntafólk og námsmenn koma saman og ræða um Besta flokkinn og hvað sé best fyrir alla.

Langar þig að sigla með hraðskreiðum gondól frá Sæbraut til Ægissíðu og horfa á froska í Tjörninni og íkorna leika sér í Hljómskálagarðinum? Settu þá X við Æ. Áfram Reykjavík!

 

Facebook   
 

Besti á Twitter

twitterbestiflokkurinn á Twitter