Stöndum vörð um allskonar!

Landsmálin

hillbillyÁ ferðum mínum um landið kom ég í lítinn bæ sem heitir Hornafjörður eða eitthvað svoleiðis. Það er sama hvert ég kem allstaðar hefur fólk mikinn áhuga á landsmálapólitíkinni. Allir vilja tala um Besta flokkinn. Ég hélt fjölmennan samstöðufund á einum stað sem ég man ekki hvað heitir en er rétt hjá Akureyri. Þar var maður með kind í bandi. Hún var einsog hundur, hlýddi kalli og settist á skipun. Hún hafði meira að segja lært að naga bein. Eftir að hafa spjallað við manninn í góða stund og svarað spurningum hans um Besta flokkinn og tillögur okkar um að grafa síki í gegnum Reykjavík, spurði ég hann afhverju hann væri með þessa kind með sér. “Vegna þess að mér finnst vænt um hana,” svaraði hann um hæl. Þetta skildi ég. Líf fólks útá landi er svo ólíkt lífi okkar hér í borginni. Hér tökum við ákvarðanir í fínum skrifstofum sötrandi á Latte á meðan þetta fólk drekkur export og borðar kvöldmatinn sinn með dýrum. Fólk útá landi, sérstaklega á Akureyri og þar í kring, talar tungumál sem var talað fyrir tuttugu árum um allt land en við höfum glatað. Það sem við teljum sjálfsagt er þeim oft framandi. Hópur bænda kom til Húsavíkur alla leið úr Mývatnssveit á kynningarfund Besta flokksins. Þeir komu ekki til að hlusta heldur hafði það spurst út í sveitinni þeirra að ég ætti iPhone. Þeir vildu sjá hann og fá að koma við hann. Ég leyfði einum þeirra að hringja heim til sín. Ég gleymi því aldrei. Þetta skipti hann svo miklu máli að tár hrundu niður kinnar hans þegar hann talaði við krakkana sína sem sem eflaust stóðu berfæt, tannlaus og skítug í einhverjum mykjuhaug. Honum fannst hann vera að tala við þau úr framtíðinni. Hann skildi ekki að þetta væri bara sími. En þetta sýndi mér að öll erum við tilfinningaverur.

Fólk útá landi er oft vitlaust og fáfrótt og kann ekki neitt nema moka skít og klappa dýrum og drepa þau til að lifa af veturinn. En þau hafa tilfinningar og þannig verða þau hluti af okkur. Við erum öll tengd sama hvar við búum. Íslenska sauðkindin sameinar okkur. Enginn þekkir kindina eins vel og bóndinn vegna þess að hann býr með henni, borðar með henni, fer með hana í útilegur, sefur hjá henni og fer með henni í sund. Hann er líklega eini maðurinn í heiminum sem veit hvenær hún á afmæli. Svo komum við og borðum hana frá honum. Okkur borgarbúum gæti ekki verið meira sama um tilfinningar hans. Við þurfum að komast í Smáralind eftir að hafa byrjað daginn í World Class. En við megum ekki gleyma uppruna okkar. Afi minn var svona sveitadurgur eins og þær þúsundir bænda sem við sjáum þegar við keyrum á Land Cruiser jeppunum okkar í gegnum þeirra náttúrulega umhverfi sem er sveitin. Við flautum á þá og steytum hnefann að þeim þar sem þeir lulla eftir þjóðvegunum á Massey Ferguson traktorunum sínum. Við skiljum þá gjarnan eftir sára og reiða vegna þess að þeir skilja ekki þennan hraða sem fylgir nútímalífinu.

Íslenska sauðkindin er andlegur leiðtogi þessarar þjóðar. Hún fæðir okkur og klæðir. Hún er fyrir okkur eins og vatnið og brauðið var fyrir Jesú í síðustu kvöldmáltíðinni. Við hugsum í sauðalitunum. Við fylgjum forystusauðinum sem heild. Ef kindinn gæti talað myndi hún eflaust biðja okkur að vera betri við hvert annað. Það held ég.

 

 

Facebook   
 

Besti á Twitter

twitterbestiflokkurinn á Twitter

RSS áskrift