Stöndum vörð um allskonar!

Samstarfsyfirlýsing Besta flokksins og Samfylkingarinnar

Fyrstu verk

Borgarbúar

 • Útigangskonum verði búið öruggt húsaskjól fyrir fyrstu snjóa í haust.
 • Systkinaforgangur verði tekinn upp í leikskólum.
 • Ókeypis verði fyrir börn í sund í sumar.
 • Settur verði upp innileikvöllur í Perlunni.
 • 20 græn svæði og leikvellir borgarinnar verði teknir í gegn í sumar og boðnir borgarbúum til umhirðu. Sérstaklega verði hugað að þörfum ömmu og afa á leiksvæðunum.

Sjálfbært gegnsæi

 • Vefurinn Betri Reykjavík, www.betrireykjavik.is, verði nýttur til stuðnings við ákvarðanir og stefnumótun.
 • Opnað verði vefsvæði fyrir ábendingar almennings um aðkallandi viðhald og viðgerðir í borginni.
 • Dagbók borgarstjóra verði opin og aðgengileg á netinu.

Traustatök

 • Fagleg rekstrarúttekt verði gerð á Orkuveitu Reykjavíkur.
 • Nefndum borgarinnar verði fækkað til að auka skilvirkni og spara nefndarlaun.
 • Langtímaáætlun um fjármál, framkvæmdir, borgarþróun og atvinnumál Reykjavíkur liggi fyrir í lok árs.

Allskonar

 • Skólar geti áunnið sér sérstakan menningarfána með því að setja sér menningarstefnu og t.d. taka listamenn í fóstur.
 • Efnt verði til kvennakvölds í Reykjavík.
 • Reykjavíkurborg styðji við nýtt heimili kvikmyndanna í Regnboganum.
 • Borgarstjóri verði kjörinn stjórnarformaður Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.

Lýðræði og þátttaka

Fjölgað verði beinum atkvæðagreiðslum um mikilvæg mál og settur skýrari rammi um framkvæmd þeirra.

Samráð verði haft við íbúa og foreldra í skipulags-, umhverfis- og skólamálum, það gert markvissara og stutt við aðkomu þeirra að lykilákvörðunum.

Nefndum verði fækkað og hið pólitíska stjórnkerfi einfaldað. Sambærileg endurskoðun fari fram á stjórnsýslunni.

 • Borgarráð taki við verkefnum framkvæmda- og eignaráðs.
 • Menntaráð og leikskólaráð sameinist og nefnist „Menntaráð“.
 • Skipulagsráð nefnist „Skipulags- og samgönguráð“ og taki við samgöngumálum af umhverfis- og samgönguráði.
 • Umhverfisráð nefnist „Umhverfis- og auðlindaráð“. Ráðið fari með stefnumótun í orku- og auðlindamálum og taki einnig við verkefnum heilbrigðisnefndar.
 • Framtalsnefnd verði lögð niður og verkefni hennar lögð undir velferðarráð.
 • Stjórnsýsla í ráðhúsi verði endurskipulögð og einfölduð.
 • Hverfaráð verði efld.

Skerpt verði á verkaskiptingu milli stjórnmálamanna og embættismanna.

Öll störf hjá Reykjavíkurborg, önnur en pólitískra aðstoðarmanna, verði auglýst og ráðningar ákveðnar á faglegum forsendum.

Siðareglur borgarstjórnar verði endurskoðaðar.

Reykjavíkurborg þrýsti á að sett verði á stofn siðanefnd á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga til að úrskurða í álitamálum og þegar grunur vaknar um brot á siðareglum.

 

Hverfastefna

Aukin verkefni og fjárráð flytjist til hverfaráðanna.

Í samráði við íbúa og starfsfólk verði útfærðar tillögur um hvernig best sé að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði hverfanna með eflingu hverfaráða, hverfatengdrar þjónustu og forgangsröðun í rekstri innan hverfis.

 

Innflytjendur og jafnréttismál

Þjónustu- og ráðgjafarhlutverk borgarinnar við innflytjendur verði endurskoðað í samráði við fulltrúa innflytjenda, önnur sveitarfélög, og ríkið.

Fjölmenningu og framlagi innflytjenda til samfélagsins verði gert hærra undir höfði.

Félög innflytjenda taki þátt í stefnumótun borgarinnar.

Þátttaka barna og ungmenna af erlendum uppruna í frístundastarfi verði aukin í samstarfi við íþróttafélög, skólahljómsveitir, lífsskoðunarfélög og listaskóla.

Móðurmálskennsla barna af erlendum uppruna og íslenskukennsla fyrir innflytjendur verði efld í samstarfi við grasrótarsamtök.

Þróun kynbundins launamunar verði könnuð reglulega og brugðist við henni með áætlun sem hefur það að markmiði að honum verði útrýmt að fullu.

Mörkuð verði stefna um jafnréttisfræðslu. Grunn- og leikskólar mæti þörfum bæði stráka og stelpna.

Mótuð verði aðgerðaráætlun gegn ofbeldi og einelti. Tryggt verði að allt starfsfólk borgarinnar bregðist markvisst við þegar grunur leikur á um ofbeldi og einelti.

 

Allskonar

Borginni verði stjórnað með bros á vör.

Stefnt skal að því að þróa „norðurhjaragarð“ í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum með sérstakri áherslu á náttúruvernd og tengingu hans við skólana í borginni.

Bílaumferð á tilteknum svæðum í miðborginni verði takmörkuð í tilraunaskyni.

Hálfbyggð skólahverfi verði kláruð. Útþensla borgarinnar verði stöðvuð.

Lýðræðis- og ábendingagáttin „Betri Reykjavík“, www.betrireykjavik.is, verði þróuð frekar á vef Reykjavíkurborgar. Hugað verði að aðgengi þeirra sem ekki eru nettengdir að umræðum og ákvarðanatökum.

Áhersla verði lögð á samveru og sameiningu kynslóðanna. Markvisst verði unnið að því að rjúfa félagslega einangrun, sérstaklega aldraðra, í samvinnu við einstaklinga, félög og stofnanir í hverfum. Drepum ekki gamla fólkið úr leiðindum.

Eigendur niðurníddra húsa í borginni verði hvattir til að koma þeim í viðunandi horf. Dagsektum verði beitt ef frestir til aðgerða eru ekki virtir.

Embætti borgarstjóra verði fært nær borgarbúum.

 

Atvinna

Efnt verði til funda með samtökum í atvinnulífi og fulltrúum fyrirtækja og stofnana til að skilgreina stöðu, styrkleika og sóknarfæri atvinnulífs Reykjavíkurborgar til skemmri og lengri tíma.

Nágrannasveitarfélögum, ríkisstjórn, menntastofnunum og aðilum vinnumarkaðar verði boðið til þátttöku í samningi um vöxt atvinnulífsins á höfuðborgarsvæðinu. Markmið samningsins verður að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja í virkri alþjóðlegri samkeppni, auka veltu þeirra, verðmætasköpun, útflutningstekjur og skapa þannig grunn fyrir umtalsverða fjölgun starfa á næstu misserum.

Þróunar- og nýsköpunarfélag Reykjavíkurborgar í atvinnumálum verði endurreist. Það verði vettvangur samstarfs opinberra og einkaaðila um að fjölga nýjum fjárfestingum í borginni.

Höfuðborgarstofa, viðburða- og markaðsskrifstofa Reykjavíkurborgar í ferðaþjónustu, verði opnuð fyrir aðkomu, fjármagni og nánara samstarfi við ferðaþjónustufyrirtæki.

Mörkuð verði heildarstefna fyrir afþreyingu ferðamanna í Reykjavík, með sérstakri áherslu á fjölskyldufólk.

Stutt verði sérstaklega við hátíðir og viðburði sem eiga sér stað utan háannatíma í komu ferðamanna.

Átak verði gert í að gera Reykjavík enn ferðamannavænni, til dæmis með merkingum og upplýsingaskiltum á erlendum tungumálum.

Stutt verði við uppbyggingu þekkingar- og heilbrigðistengdra fyrirtækja með samstarfi um beina markaðssetningu á háskólasvæðunum í Vatnsmýrinni í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Landspítalann. Reykjavíkurborg greiði fyrir skipulagi stúdentaíbúða og annarra innviða sem stuðla að sömu markmiðum.

Einangrun og óvirkni ungra atvinnuleitenda verði rofin með samstarfi ríkis og borgar, stéttarfélaga, símenntunarmiðstöðva, ÍTR, grunn- og framhaldsskóla.

 

Börn og skólar

Leikskóla- og menntaráð verði sameinuð og heiti ”menntaráð” enda er leikskólastigið fyrsta skólastigið og mikilvægt að skapa tengsl milli menntunar allt frá upphafi leikskólagöngu til loka framhaldsnáms.

Borginni verði mörkuð barna- og fjölskyldustefna.

Systkinaforgangur verði tekinn upp í leikskólum.

Leik- og grunnskólar og frístundaheimili móti sér menningarstefnu á grundvelli „Vegvísis til listfræðslu“ (UNESCO) og gerð verði áætlun um samstarf þeirra við listamenn og menningarstofnanir.

Skólar geti keppt um ,,Menningarfána“. Skólar sem skara fram úr í menningar- og listfræðslu fengju þannig viðurkenningu. Slíkum fánum gæti fjölgað eftir áherslum í skólasamfélaginu hverju sinni, t.d. bættust við vísindafáninn, heilsufáninn.

Starfsdagar og frí í leik- og grunnskólum verði samræmdir innan hverfa.

Samhliða aukinni fagmennsku með lengingu kennaranáms leggi leikskólinn aukna áherslu á ögrandi viðfangsefni við hæfi hvers og eins barns.

Stefnt verði að því að samþætta skóla- og frístundastarf með nýjum leiðum, svo kraftar allra nýtist í þágu barnanna.

Foreldrum verði gert kleift að láta skoðun sína á skóla barna sinna í ljós með stuttum rafrænum skoðanakönnunum með reglulegu millibili.

Samstarf leik- og grunnskóla verði aukið í verkefnum tengdum málþroska og byrjendalæsi.

Listnám og hreyfing verði í boði á skólatíma og í skólahúsnæði. Leitað verði leiða til að sem flest börn geti notið listkennslu og hreyfingar.

Samstarf þeirra sem koma að menntun, umönnun og uppeldi barna og ungmenna verði aukið. Þjónusta, stuðningur og ráðgjöf við börn, fjölskyldur og skóla á heima úti í hverfunum. Skólarnir verði opnaðir fyrir þátttöku foreldra og sjálfboðaliða.

Hugað verði að byggingu nýs sérskóla þar sem starfsemi Öskjuhlíðar- og Safamýrarskóla fer undir eitt þak. Skóli án aðgreiningar verði sem fyrr hornsteinn menntastefnu borgarinnar.

Tækifæri til kennara- og skólastjóraskipta verði athuguð með það að markmiði að stuðla að útbreiðslu þekkingar, auknu samstarfi milli skóla og starfsþróun.

Skólastjórar verði ráðnir til ákveðins árafjölda í senn en heimilt verði að endurnýja samninga að þeim tíma liðnum.

Auka skal vægi siðfræði, heimspeki, tjáningar og samvinnu í námi barna í leik- og grunnskólum og á frístundaheimilum.

Aðgerðir til að vinna gegn áhugaleysi stráka í skólum verði forgangsmál. Karlkennurum verði fjölgað eins og kostur er.

 

Viðhald og verklegar framkvæmdir

Sumarið 2010 verði kapp lagt á að gera sameiginleg græn svæði og leiksvæði borgarinnar fín og íbúum, hópum og félagasamtökum boðið að taka þau að sér. Sérstök áhersla verði lögð á ömmu- og afaróló þar sem kynslóðirnar geti notið lífsins saman.

Settur verði upp ábendingarvefur um nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir í Reykjavík.

Framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar verði tekin til endurskoðunar og stefnt að því að tvöfalda viðhald á fasteignum borgarinnar árin 2011-2012. Með því að flýta brýnum viðhaldsverkefnum, sem annars hefðu komið til framkvæmda 2013-2015, skapast störf þegar mest þarf á þeim að halda.

Sett verði fram heildstæð áætlun um endurnýjun eldri hverfa. Í stað þess að hverfin drabbist niður í kreppunni verði lögð áhersla á viðhald og endurnýjun á opinberum byggingum, auk endurbóta á borgarumhverfinu og útisvæðum.

Eflingu mannlífs og borgarmyndar í Efra-Breiðholti verði hleypt af stokkunum undir merkjum átaksins: „111 Reykjavík“.

Liðka skal fyrir samstarfi við Vinnumálastofnun um starfsþjálfunarsamninga, sérstök tímabundin átaksverkefni og ,,Starfsorku“ sem býður fullar atvinnuleysisbætur með hverjum starfsmanni á atvinnuleysisskrá í allt að eitt ár þegar ráðist er í nýsköpunarverkefni eða markaðssetningu erlendis.

 

Meira allskonar

Stefnt er að því að beita óvenjulegum aðferðum til að auka náungakærleik í borginni okkar.

Grænum svæðum innan borgarmarkanna verði betur sinnt og þau gerð líflegri.

Menningarsögu kvenna í borginni verði gert hærra undir höfði.

Við uppbyggingu íþróttaaðstöðu verði fyrst horft til þeirra hverfa þar sem lítil aðstaða er í boði, til dæmis Grafarholts, Norðlingaholts og Úlfarsárdals.

Kannaður verði möguleiki á eflingu alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík og stutt við hugmyndir um „kvikmyndastofu“, heimili kvikmyndanna í Regnboganum.

Útfærðar verði leiðir til að tryggja notkun á auðu húsnæði og laða smærri fyrirtæki að hverfum borgarinnar.

Leiðindi í borgarkerfinu verði leituð uppi og þeim útrýmt nema ríkir almannahagsmunir geri þau algjörlega nauðsynleg.

Stofnun fyrirtækja verði einfölduð. Einfalda skal leyfisveitingar og umsóknarferli fyrir þá sem vilja stofna til reksturs í Reykjavíkurborg.

Auðvelda skal fólki að gera breytingar á íbúðarhúsnæði til að bæta aðgengi fatlaðra og aldraðra. Með því er þeim gert kleift að búa lengur heima. Jafnhliða eykst eftirspurn eftir vinnu hönnuða, arkitekta og iðnaðarmanna.

 

Umhverfis- og auðlindamál

Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkur verði „Umhverfis- og auðlindaráð“ og fái það hlutverk að móta orku- og auðlindastefnu borgarinnar.

Sameiginlegt eignarhald borgarbúa á auðlindum í borgarlandinu verði tryggt og kveðið á um eðlilegt afgjald af þeim.

Orkuskipti í samgöngum og rafvæðing samgangna verði forgangsmál til framtíðar.

Stefnt verði að því að innan áratugar verði a.m.k. annar hver bíll í Reykjavík knúinn innlendri, vistvænni orku. Borgin beiti sér og Orkuveitu Reykjavíkur fyrir markvissu átaki í þessu efni í samvinnu og samráði við löggjafa- og framkvæmdavald, nágrannasveitarfélög, fyrirtæki, frjáls félagasamtök og aðra þá aðila sem hjálpað geta til við að ná þessu markmiði.

Sett verði skilgreind og tímasett markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík.

Borgin gangi fram með góðu fordæmi þegar kemur að endurnýjun bílaflota hennar og byggi hann upp á raf- og metanknúnum bílum.

Áhersla skal lögð á að vernda ströndina þar sem hún er ósnortin og græna trefilinn umhverfis höfuðborgarsvæðið.

Borgin setji gott fordæmi með því að setja stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar metnaðarfulla umhverfis- og samgöngustefnu með mælanlegum markmiðum.

Leitast skal við að styrkja nafn Reykjavíkur sem miðstöð í rannsóknum á málefnum norðurslóða, loftslagsbreytinga, jarðhita og endurnýtanlegum orkugjöfum.

Unnið verði að því að stórauka endurvinnslu.

Kannaður verði grundvöllur fyrir því að umhverfisvotta Reykjavík.

 

Skipulags- og samgöngumál

Skipulagsráð verði „Skipulags- og samgönguráð“ til að undirstrika samhengi skipulags- og samgangna í borgarmyndinni.

Svæðiskipulagsráð eða annar sameiginlegur vettvangur sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins hafi vald til að móta og stýra stefnu á sviði landnotkunar, byggðaþróunar, samgangna- og umhverfismála.

Reykjavík eigi frumkvæði að því að unnið verði nýtt svæðisskipulag sem nái frá Reykjanesi í vestri, Árborgarsvæðinu í austri og Borgarnesi í norðri, og að til verði sameiginleg sýn á umhverfis-, atvinnu- og húsnæðismál á öllu svæðinu.

Réttur íbúanna á að vera skýr og öllum skiljanlegur. Þeim á að bjóðast ókeypis mat hlutlausra sérfræðinga á byggingarmagni, hæðum, nýtingarhlutfalli, skuggavarpi og umferðarspám. Málsmeðferð í skipulags- og byggingamálum verði einfölduð og þjónustumiðuð.

Hugað verði sérstaklega að sameiginlegum borgarrýmum, svo sem Hlemmi, Ingólfstorgi, Lækjartorgi, Óðinstorgi, Vitatorgi, Spönginni, Árbæjartorgi og fleiri.

Með betra borgarskipulagi, blöndun byggðar, styttingu á vegalengd milli heimila og vinnu, betri almenningssamgöngum og bættri aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur verði dregið úr þörfinni fyrir sífellt stærri og dýrari umferðarmannvirki.

Færri mislæg gatnamót, fleiri einlæg gatnamót!

Hjólandi og gangandi njóti forgangs í umferðinni. Götur verði gerðar fallegri. Hjólreiðaáætlun verði unnin fyrir höfuðborgarsvæðið og hrint í framkvæmd í Reykjavík.

Farið verði í markvissar aðgerðir til að draga úr umferðarhættu, svifryks- og hávaðamengun í borginni. Dregið verði úr notkun nagladekkja og umferðarhraða, og bílastæðareglur endurskoðaðar.

Auka skal ferðatíðni og bæta leiðakerfi strætós. Tryggt verði að strætó gangi alla daga ársins. Strætó fái forgang á stofnleiðum og leiðakerfið taki mið af því að börn komist milli heimila sinna og frístundastarfs.

Lögð verði áhersla á endurnýjun úr sér genginna iðnaðar- og verslunarsvæða og þéttingu byggðar. Áhersla verði lögð á endurskipulagningu Elliðavogs- og Höfðasvæðis. Skipulagi Mýrargötusvæðisins og Gömlu hafnarinnar verði lokið. Þegar fasteignamarkaður kemst í eðlilegt horf verði hafin uppbygging við Hlemm og á völdum svæðum í Vatnsmýri.

Við skipulag nýrra hverfa og endurnýjun gamalla hverfa verði stefnt að því að þar ríki félagslegur fjölbreytileiki. Leiguíbúðir verði minnst fimmtungur íbúða á nýjum byggðarsvæðum. Unnið verði að jöfnu aðgengi fyrir alla borgarana, innan húss sem utan.

Byggðamynstrið í miðborg Reykjavíkur verði verndað. Heildstæð húsverndaráætlun fyrir alla borgina verði hluti af nýju aðalskipulagi Reykjavíkur.

Gert verði ráð fyrir lestartengingu milli Vatnsmýrar og Keflavíkurflugvallar í nýju aðalskipulagi þar sem unnið verður að því að Vatnsmýrin byggist upp í áföngum.

Teknar verði upp viðræður um framtíð flugvallarsvæðisins í Vatnsmýri.

 

Fjölskyldur og velferð

Þjónustumiðstöðvar í hverfum verði efldar svo öll nærþjónusta sé á einum stað og að hún sé vel kynnt íbúum.

Tekið verði af myndugleik á vanda útigangsfólks og tillögur gerðar um úrbætur í samráði við félagasamtök og fagfólk.

Samþætt heimaþjónusta og heimahjúkrun verði hverfisbundin. Unnið verði að nánari samstarfi og samvinnu við heilsugæsluna.

Skipulag barnaverndar verði yfirfarið og almennu barnaverndarstarfi sinnt á þjónustumiðstöðvum.

Frístundakort barna verði „opnað“ svo hægt verði að bæta inn á það greiðslum.

Stefnt verði að því að tryggja að samanlögð fjárhags- og húsnæðisaðstoð nái lágtekjumörkum Hagstofunnar sem eru nú 160.800 kr. á mánuði. Stefnt verði að því að fjárhagsaðstoð sé ekki langtímaúrræði.

Öllum sem eru á framfærslu borgarinnar lengur en í 3 mánuði verði boðið upp á ráðgjöf,námskeið og önnur úrræði til að auka möguleika þeirra á virkri þátttöku í samfélaginu.

Reykjavíkurborg leiti eftir auknu samstarfi við Vinnumálastofnun um leiðir til úrbóta á aðstæðum þeirra sem eru utan vinnumarkaðar.

Markvisst verði unnið að flutningi þjónustu fatlaðra og aldraðra frá ríki til sveitarfélaga. Reykjavíkurborg hafi forgöngu um þróun þjónustunnar. Notendastýrð þjónusta verði þróuð samhliða yfirflutningi eins og samtök fatlaðra hafa haft forgöngu um.

Mótuð verði þjónustustefna fyrir eldri borgara í Reykjavík í samstarfi við samtök þeirra.

Félagsmiðstöðvar í hverfum og þær listasmiðjur sem nú eru að mestu sóttar af eldri borgurum verði einnig opnaðar fyrir foreldra með ungbörn, atvinnuleitendur og aðra hópa sem gagn og gaman kynnu að hafa af því.

 

Húsnæðismál

Stuðlað verði að fjölbreytileika í framboði á húsnæði og félagslegri fjölbreytni í hverfum.

Fólk verði stutt í þeirri ákvörðun að búa heima með þeirri aðstoð sem þar er hægt að veita því.

Reykjavíkurborg stuðli að vexti og viðgangi húsnæðissamvinnufélaga, leigu- og búsetusamtaka í almannaþágu.

Skoðað verði hvort Félagsbústaðir verði hluti af stærra húsnæðissamvinnu- og búseturéttarfélagi á öllu höfuðborgarsvæðinu.

Íbúar í húsnæði á vegum borgarinnar hafi tækifæri til þess að skipta yfir í búseturéttarleið og eignast búseturétt.

 

Enn meira allskonar

Höfuðborgarsvæðið er sambýli. Litið verði á höfuðborgarsvæðið sem eina heild. Opnað verði á viðræður um hvers kyns sameiningu og nánari samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Stofnað verði embætti „Umboðsmanns borgarbúa“ sem leiðbeinir íbúunum í samskiptum þeirra við embætti og stofnanir borgarinnar og veitir þeim ráðgjöf um rétt sinn.

Teknar verði upp viðræður um að Reykjavíkurborg reki tilraunaskóla fyrir 13-18 ára nemendur.

Öllum börnum standi til boða morgunverður og hollur hádegismatur í skólum og leikskólum á viðráðanlegu verði. Kannaður verði sá kostur að skólamáltíðir verði fjármagnaðar með valgreiðslum foreldra og annarra útsvarsgreiðenda í Reykjavík.

Flutningur húsa úr Árbæjarsafni á því sem næst upprunalega staði sína eða í húsasöguþyrpingu í Hljómskálagarðinum verði kannaður.

Dagbók borgarstjóra verði opin almenningi og aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar.

Opnir hverfafundir borgarstjóra verði endurvaktir.

 

Fjármál

Velferð og þjónusta við íbúana njóti forgangs við ráðstöfun fjármuna borgarinnar.

Fjármál Reykjavíkurborgar eru fjármál borgarbúa. Fjármál borgarinnar verða sett fram á mannamáli og með myndrænum hætti sem öllum er skiljanlegur.

Unnin verði áætlun um efnahags- og fjármálastjórn Reykjavíkurborgar til fimm og tíu ára. Samhliða gerð hennar verði unnar fjármálareglur, stefna um áhættu- og lánastýringu þar sem fjárhagslegt eftirlit verði styrkt í ljósi reynslunnar. Áætlunin og stefnan nái jafnt til borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar.

Góð meðferð almannafjár verði höfð að leiðarljósi í öllum rekstri Reykjavíkurborgar.

Styrkveitingar borgarinnar verði teknar til endurskoðunar. Farið verði yfir forsendur styrkja og samstarfssamninga borgarinnar, ásamt eftirliti með notkun þeirra og árangursmati. Þeir sem njóti styrkja skuldbindi sig til að vera með opið bókhald.

 

Þjónusta

Átak verði gert í netvæðingu þjónustu Reykjavíkurborgarinnar.

Þjónusta borgarinnar á að taka mið af þeim sem nota hana. Allt viðmót þjónustu við íbúana verði einfaldað.

Markmið þjónustunnar og tímafrestir verði skilgreind þar sem því verður við komið. Framkvæmd þjónustunnar endurspegli þann rétt sem Reykvíkingar eiga á faglegri þjónustu, skilvirkni og góðri nýtingu fjármuna.

Borgin taki upp stöðugt árangursmat þjónustu á sem flestum sviðum og unnið verði að því að innleiða vottuð gæðakerfi þar sem við á.

 

Fyrirtæki borgarinnar

Eigendastefna verði skilgreind fyrir fyrirtæki og byggðasamlög í eigu borgarinnar.

Tryggja þarf að stefna Reykjavíkurborgar nái fram að ganga í samræmi við eignahluti borgarinnar í byggðasamlögum og fyrirtækjum borgarinnar að teknu eðlilegu tilliti til hagsmuna og sjónarmiða minnihlutaeigenda.

Innra eftirlit veiti virkt aðhald í borgarkerfinu og reglubundið árangursmat verði ófrávíkjanleg regla í öllum rekstri.

 

Allskonar allskonar

Ávallt verði lögð áhersla á bjarta framtíð Reykjavíkur.

Facebook   
 

Besti á Twitter

twitterbestiflokkurinn á Twitter

RSS áskrift