Stöndum vörð um allskonar!

Borgarstjórabíllinn

borgarstjorabillEf ég væri borgarstjóri þá mundi ég láta borgina kaupa handa mér húsbíl. Mig hefur alltaf langað í húsbíl. Svo mundi ég keyra á milli hverfana og heilsa uppá íbúana. Ég held að þetta væri frábær hugmynd og mjög töff. Borgarstjórabíllinn. Ekkert ólíkur Bókabílnum. Hann yrði ekki innréttaður til að sofa í heldur til að taka á móti gestum. Það væri kaffivél í honum, skrifborð og stólar og ísskápur með djúsi fyrir krakkana og mjólk fyrir þá sem vilja mjólk með kaffinu sínu. Að sjálfsögðu væri þráðlaust nettenging. Best væri ef þetta væri rafmagnsbíll. Hann yrði blár á litinn.

Borgarstjórabíllinn mundi keyra á milli hverfa einu sinni í viku, td. á föstudögum og það yrði tilkynnt sérstaklega: “Borgarstjórabíllinn verður í Norðurfelli á föstudaginn. Allir velkomnir!” Svo mundi ég bara taka á móti fólki og ræða við það. Allir fengju kaffi og smákökur og á tillidögum yrði boðið uppá pönnukökur. Fólk gæti sest með mér inní bílinn og rætt um eitthvað eða spjallað saman úti. Það færi kannski mest eftir veðri. Kannski kæmi einhver sem væri með einhverja frábæra hugmynd um eitthvað. Ég mundi skoða það. Stundum kæmi stór hópur af fólki útaf einhverju miklu vandamáli. Þá mundi ég ávarpa hópinn, heyra málavöxtu og svo mundum við öll labba að vandamálinu og skoða það. Ég væri með aðstoðarmann með mér sem mundi skrifa allt niður og taka myndir. Kannski væri það hræðilega ömurlegur leikvöllur eða hættuleg umferðargata eða eitthvað skipulagslegt rugl sem allir væru öskureiðir útaf. Borgin okkar er uppfull af rugli eftir margra ára óstjórn. Þetta væri fín leið fyrir mig til að vera í góðu sambandi við íbúa borgarinnar og mundi gera embættið sýnilegra, skemmtilegra og alþýðlegra. Svona fengju allir tækifæri til að hitta borgarstjórann sinn og tala beint við hann. Ég mundi ekki vísa fólki annað. Ég mundi ekki hvetja það til að hringja í Skipulagssvið og tala við einhvern mann sem aldrei er við og svarar ekki tölvupósti. Ég mundi taka þetta að mér og láta aðstoðarmann minn ganga í málið og láta laga það sem er að. Ég held að kerfið sé líklegra til að bregðast við kröfu frá borgarstjóranum sjálfum heldur en kvabbi í einhverjum Jóni Jónssyni útí bæ. Þannig er það bara. Ég hef svo oft sjálfur staðið í stappi við yfirvöld og látið vísa mér fram og aftur. Oft hef ég gefist upp. Það er ekki gott. Enginn þekkir betur vandamál en sá sem býr við það. Hann er líka yfirleitt með bestu og hagkvæmustu lausnina. Svona mundum við smátt og smátt laga allskonar vandamál útum alla Reykjavík um leið og það væri gaman. Allir yrðu glaðir. Ég væri líka alveg til í að láta bjóða mér í mat heima hjá einhverju fólki ef það mundi bjóða mér það og ef aðstoðarmaðurinn minn mætti koma með. Til gamans má geta þess að aðstoðarmaður minn er kona.

Eitt af svona ruglum, sem ég þekki, er gangbrautin á gatnamótum Vonarstrætis og Lækjargötu. Þetta er hættuleg og asnalega staðsett gangbraut. Það er ekki mikið mál að færa hana.

Má bjóða þér að fá skemmtilegan borgarstjóra í heimsókn? Settu þá X við Æ.

 

Facebook   
 

Besti á Twitter

twitterbestiflokkurinn á Twitter