Stöndum vörð um allskonar!

Rafmagnsbílar

nissan-leafÖllum finnst gaman að aka bíl. Það er eðlilegt. Áður en fyrsti bíllinn kom á markað voru engir bílar til. Það voru erfiðir tímar, sérstaklega fyrir hesta vegna þess að þeir voru látnir gera allt sem bílar áttu að gera. Við þurfum ekki að leita lengra en í ljóðið Stjörnufákur eftir Jóhannes úr Kötlum til að skilja þann grimma veruleika. Ef engir bílar væru yrði fólk að labba allra sinna ferða. Það gæti reynst mörgum erfið raun sérstaklega börnum og gamalmennum þar sem oft þarf að fara yfir umferðargötur þar sem mikil umferð er. Bíll er nauðsyn. Það er staðreynd. Enginn vill vera bíllaus, allra síst í góðum veðrum þegar ætlunin er að fara í tjaldútilegu. En eru bílar góðir? Það held ég ekki.

 

Bílar ganga fyrir bensíni og olíu. Það er ekki gott. Olía er dýr og mengar mikið. Hún er líka framleidd af af mönnum sem eru vondir við annað fólk, sérstaklega konur. Það er slæmt. En bílar eru samt sem áður nauðsynlegir.

Ekki getum við notað hesta því þeir myndu skíta útum allt og á endanum yrði það Hreinsunardeild Reykjavíkur ofviða að hreinsa upp eftir þá. En hvað er til ráða? Margir vilja skoða möguleika á að nota vetni sem orkugjafa. Það er rugl og verður ekki rætt frekar hér. Enn aðrir vilja vinna olíu úr fiskafgöngum, repju og korni. Það er ekki alvitlaust. Best væri ef allir gerðu eins. Hvað með að láta olíu bara eiga sig? Er það raunhæft? Ég held það. Besti flokkurinn vill nota rafmagnsbíla í Reykjavík. Það væri mjög sniðugt. Rafmagnsbílar menga ekki neitt og mundu henta mjög vel hér á landi. Við eigum fullt af rafmagni og þurfum ekki að flytja það inn. Besti flokkurinn vill stefna að því að rafbílavæða Reykjavík. Það er ekki erfitt. Fyrst viljum við rafvæða almenningssamgöngur. Við þurfum ekki sporvagna heldur venjulega strætóa sem ganga fyrir rafmagni. Síðan viljum við rafbílavæða alla bíla í eigu Reykjavíkurborgar. Allir nýir bílar verða rafdrifnir. Rafmagnsinnstungur verða settar upp á bílastæðum og víðar. Vonandi verður það til þess að fleiri sjá sér hag í að fá sér rafmagnsbíl og rafknúnum einkabílum fjölgar. Allir bílar á Íslandi gætu auðveldlega gengið fyrir rafmagni. Það væri best. Fiskiskipin gætu líka gengið fyrir rafmagni. Það væri jafnvel það albesta því þá mundum við hætta að menga höfin í kringum landið með olíu. Við gætum hætt að eyða peningum í olíu. Rafmagnsbílar eru framtíðin. Við höfum forskot á aðrar þjóðir í þessum efnum. Við erum fá og við framleiðum rafmagn. Við gætum orðið fyrsta og eina landið í heiminum sem notaði hvorki olíu né kol. Við yrðum sjálfstæðari og það væri mjög gott fyrir okkur. Við værum engum háð með orkugjafa. Svo yrðum við líka leiðandi á þessu sviði. Við yrðum best. Fólk mundi koma frá útlöndum til að læra af okkur og dást að því hvað við værum sniðug og skemmtileg. Allir yrðu glaðir og mundu klappa fyrir okkur. Við gætum kennt öðrum þjóðum að gera eins og við. Tæknilegar útfærslur eru margskonar. Þetta er samt ekkert sérstaklega flókið eða erfitt. Miklar framfarir hafa orðið á þessu sviði undanfarin ár og munu verða meiri næstu ár og áratugi. Rafmagnsbílar eru orðnir flottir. Þeir eru ekki lengur litlir, asnalegir og með þrjú hjól. Þeir líta út eins og venjulegir bílar. Við yrðum samt áfram að kaupa flugvélabensín þangað til rafmagnsflugvélar verða raunhæfur kostur. Það mun koma að því. Það væri gaman og viðeigandi ef fyrsta rafmagnsflugvélin hæfist á loft á Íslandi. Það væri fín landkynning.

Má bjóða þér skemmtilega framtíð í Reykjavík þar sem allir eru glaðir og allt gengur fyrir rafmagni? Settu þá X við Æ.

Facebook   
 

Besti á Twitter

twitterbestiflokkurinn á Twitter