Stöndum vörð um allskonar!

Styttur

180px-Einar_Jonsson_outlawSyttur eru skemmtilegar. Fólki finnst gaman að skoða styttur. Í London eru styttur af ljónum. Samt eru engin villt ljón á Englandi, allrasíst í London. Samt finnst fólki gaman að skoða stytturnar. Sumir taka myndir af þeim, fá jafnvel mynd af sér við hlið styttanna. Kannski ferðast einhverjir til London gagngert til að sjá þessar styttur. Ég veit það ekki. Það skiptir ekki máli.

Í Reykjavík eru nokkrar styttur. Það er eins og þeim hafi verið plompað niður hér og þar og án þess að einhver sérstök hugsun liggi að baki. Í miðbænum eru til dæmis nokkrar, flestar af alvarlegum köllum, í lafafrökkum, sem standa bara og horfa útí loftið eða halda á einhverju. Jón Sigurðsson er á Austurvelli. Skúli fógeti stendur rétt hjá. Hvorugur er eitthvað sérstaklega líflegur. Skúli er líka mjög skringilega klæddur. Ein flottasta styttan er Ingólfur Arnarson á Arnarhóli. Það veit enginn hvort Ingólfur var til í alvörunni eða hvort hann var fyrstur til að koma hingað. Það skiptir ekki máli.

Styttan er tákn um virðingu okkar við forfeður okkar, þá sem fyrst námu hér land og lögðu grunn að byggð. En forfeður okkar voru ekki bara karlmenn. Helmingur Íslendinga eru konur. Þess vegna verður að rísa stytta við hlið Ingólfs af konunni hans Hallveigu Fróðadóttur. Það er bara sanngjarnt. Hún gæti verið í svipuðum stíl og hann. Mér finnst við alveg geta sýnt formæðrum okkar og dætrum þeirra þá virðingu. Það er ein reglulega skemmtileg stytta í miðbænum og það er styttan af Óþekkta embættismanninum. Hún er fyndin. Aðrar styttur eru frekar leiðinlegar. Það vantar fleiri skemmtilegar styttur. Ég vil gera styttur af þeim kynlegu kvistum sem settu svip sinn á bæinn. Þær yrðu svona eins og umhverfislistaverk. Maður sér þetta oft í útlöndum. Ég vil sjá styttur af Ástu Sigurðardóttur, Vilhjálmi frá Skáholti, Degi Sigurðarsyni og fleirum. Þessar styttur verða ekki uppstylltar heldur eins og viðkomandi var.

Það þarf líka að flytja nokkrar styttur. Ég vil flytja tvær strax. Vatnsberinn eftir Ásmund Sveinsson er einn fallegasta stytta í Reykjavík. Henni var komið fyrir uppá holti þar sem enginn sér hana nema gera sér sérstaka ferð til þess. Það er ekki gott. Ég vil láta flytja hana í bæinn og finna henni verðugan stað til dæmis fyrir ofan Hlemm þar sem brunnur var. Í leiðinni vil ég að Laugavegur endi á Hlemmi og fyrir ofan Hlemm byrji Suðurlandsbraut. Það þarf að einfalda margt. Hin styttan er Útlaginn eftir Einar Jónsson, sem nú stendur á horni Suðurgötu og Hringbrautar vandlega hulin á bakvið grenitré. Ég vil flytja hana á Lækjartorg og láta reisa veglegan stall undir hana. Það væri mikið töluvert fallegra en það fáránlega skipulagsslys og sjónmengun sem er þar nú. Útlaginn væri þannig staðsettur að hann sæist vel bæði frá Héraðsdómi og frá Stjórnarráðinu. Með því eignaðist Íslensk alþýða sinn málsvara í styttum borgarinnar og með tímanum mundi styttan öðlast þann sess í vitund þjóðarinnar sem henni með réttu ber. Hún væri líka góð áminning fyrir þá sem sitja í Stjórnarráðinu því þar hættir fólki svo oft til að gleyma fyrir hvern það er að vinna.

Facebook   
 

Besti á Twitter

twitterbestiflokkurinn á Twitter