Stöndum vörð um allskonar!

Aðgerðaráætlun Besta flokksins: Allskonar fyrir Reykjavík!

Allskonar reksturReykjavikurborg

Hjá Reykjavíkurborg vinnur fullt af góðu og hæfu fólki. Við viljum leyfa því að sinna sinni vinnu án truflunar frá stjórnmálamönnum. Drögum skýr mörk á milli stjórnsýslu og stjórnmála. Stöðvum pólitískar ráðningar, fáum fólk sem hefur vit, reynslu og áhuga. Sýnum ábyrgð og ráðdeild (ömmuhagfræði) í fjármálastjórnun. Spörum eins og Íslenskar mæður hafa gert í gegnum aldirnar án þess að vera vondar við börnin sín.


Allskonar skipulagsmál

Klára þær framkvæmdir sem ráðist hefur verið í eins vel og hægt er. Klára frágang í nýjum hverfum og fullnægja lágmarks þjónustu. Flytja húsin í Árbæjarsafni í Hljómskálagarðinn og nota þau undir íbúðir og verslanir. Loka miðbænum fyrir bílaumferð eins og gert er í flestum erlendum höfuðborgum, með sérstöku aðgengi fyrir sjúkrabíla, lögreglu og atvinnustarfsemi. Hlúum að miðbænum og viðhöldum gömlum húsum. Stöndum vörðs um allskonar menningararfleið. Skoða möguleika á glerþökum til dæmis yfir Ingólfstorg. Flytja glæsilegustu styttur borgarinnar í miðbæinn. Fella aspir í miðbænum í áföngum og gróðursetja í staðinn hlyn, birki og hegg. Skipta um handrið á brúnni yfir Skothúsveg. Gerum borgina fallegri.

Allskonar samgöngur

Fáum strætisvagnakerfi sem virkar. Rafbílavæðum Reykjavík og verðum leiðandi í heiminum á því sviði. Það er mjög sniðugt. Minnka bílaumferð. Gjaldfrjálst í strætó fyrir börn, námsmenn, fatlaða og eldri borgara til að byrja með en stefna að algjörlega gjaldfrjálsu kerfi. Rafvæða almenningssamgöngur. Auðvelda aðgengi barna og fatlaðra yfir umferðargötur með stokkum, td. við Háskóla Íslands og á gatnamótum Hofsvallagötu og Hringbrautar og undir Bústaðaveg. Gera hjólreiðar að raunhæfum ferðamáta í borginni með hjólreiðastígum sem virka.

 

Allskonar leikskólamál

Besti flokkurinn elskar börn. Tryggja rekstur og jafnan aðgang allra að dagvistun. Vinna skipulag í samvinnu við fulltrúa starfsfólks. Hagræða í stjórnsýslu án þess að það bitni á þjónustu. Tryggja aðgang barna að menningarstarfsemi. Tekjutengja leikskólagjöld.

 

Allskonar skólar

Gerum listir að grunnþætti í skólastarfi líkt og aðrar þjóðir eru að gera og í samræmi við tillögur UNESCO; Vegvísir til listfræðslu. Tökum forystu á því sviði. Nýtt útlit og viðmót skóla. Nota timbur meira sem byggingarefni. Nýjar áherslur í leiktækjum á skólalóðum. Tími ljótu, slitsterku og leiðinlegu leiktækjanna er liðinn. Burt með grátt og inn með liti. Það er meginmarkmið Besta Flokksins að sameiginleg fræðsla og uppeldi fatlaðra jafnt sem ófatlaðra barna fari fram í skólum án aðgreiningar. Slíkt skipulag er æskileg meginregla í skipulagi skólamála, sem allir geta verið sammála um. Á sama tíma finnst okkur sjálfgefið að starfsemi sérskóla njóti fullrar virðingar sem nauðsynlegur valkostur fyrir þá sem ekki telja sín börn geta notið nauðsynlegrar þjónustu í almennum skólum. Leysa þarf húsnæðismál Öskjuhlíðarskóla og Safamýrarskóla í nýjum sameinuðum skóla. Besti Flokkurinn vill kalla saman alla hagsmunaaðila: sérfræðinga, fagfólk, kennara og foreldra til að ná sameiginlegri niðurstöðu sem er best fyrir börnin.. Koma ásættanlegu lagi á skólastarf. Engan niðurskurð í listkennslu, lífsleikni eða annari þjónustu við börn. Spara í stjórnsýslunni.

 

Allskonar fjölskyldur

Gera Reykjavík að fjölskylduvænni borg. Girða útivistarsvæði eins og Klambratún með fallegum járngirðingum en ekki veðurþolnum og ljótum vegriðum. Nýta tún undir leikvelli sem byggja á nýrri hugsun; hoppukastalar og leiktæki úr náttúrulegu byggingarefni sem eru velþekktir í Evrópu. Girt svæði fyrir hundaeigendur eins og þekkjast erlendis þar sem fólk getur sleppt hundum sínum og jafnvel sest á bekk. Starfsmenn borgarinnar sem ekki þurfa lengur að stunda túnslátt sjá um daglegan rekstur, viðhald og umsjón. Auka fjölbreytni í Húsdýragarðinum og markaðssetja hann fyrir ferðamönnum sem “Arctic Zoo.” Setja upp opið svæði fyrir ísbirni. Setja upp lundaklett. Flytja inn sauðnaut frá Grænlandi. Hafa dýrin á stórum útisvæðum en ekki búrum. Tengja Húsdýragarðinn betur skólakerfinu. Reisa þar jafnvel skóla. Gera Fjölskyldu- og Húsdýragarðinn að töfrandi stað fyrir börn og fullorðna.

 

Allskonar vinna

Auðvelda atvinnulausum aðgang að menntunartækifærum. Bjóða atvinnulausum að taka þátt í uppbyggingarstarfi í borginni. Tryggja námsfólki uppbyggilega sumarvinnu. Unglingavinna þarf ekki að ganga útá túnslátt og gróðursetningu á einærum plöntum. Skoða möguleika á starfsþjálfun. Efla samvinnu og fjárstuðning við Hitt Húsið með áherslu á Skapandi sumarstörf. Byggja á reynslu þeirra og gera stuðning við skapandi hugmyndir ungs fólks að lykilþætti í lausnum á atvinnuvandanum. Það eru listamenn sem hafa borið hróður Íslands um allan heim. Við þurfum að styðja og ala upp fleiri slíka.

 

Allskonar fyrir gamla liðið

Koma fram við aldraða af virðingu og tillitssemi. Tryggja persónulega grunnþjónustu og reyna að fyrirbyggja einangrun. Virkja menntun og starfsreynslu til dæmis með íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Koma á samstarfi milli leik- og grunnskóla við elliheimili og þjónustumiðstöðvar aldraðra og í samræmi við alþjóðlegar áætlanir. Aðgengismál skipta aldraða miklu máli um alla borg. Þau viljum við laga svo allir sitji við sama borð. Halda ömmu- og afadaginn hátíðlegan. Breytum nafninu á Miklatúni aftur í Klambratún. Setjum upp leikvelli fyrir gamalt fólk, vetvang samskipta og hreyfingar að erlendri fyrirmynd. Drepum ekki gamla fólkið úr leiðindum.

 

Allskonar fyrir aumingja

Velferðarmál skipta Besta flokkinn miklu máli. Við viljum standa vörð um hag þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu. Finna úrræði fyrir útigangsfólk í samvinnu við Lögregluna, frjáls félagasamtök og líknarfélög sem hafa haft forystu um þau mál hér í borg. Borgin á að útvega húsnæði, aðstöðu og fjármagn til þessara mála. Framtíðarlausnir en ekki reddingar. Allar borgir glíma við þetta vandamál. Ef við getum ekki gert þetta almennilega getum við ekki gert neitt annað almennilega heldur.

 

Græða allskonar

Græða mannlíf, spara pening. Gera Reykjavík að spennandi áfangastað fyrir ferðamenn, fyrir eitthvað annað en bara næturlíf; heimsborg með skapandi hugsun og merkilega sérstöðu og sögu. Borgin sem alltaf kemur skemmtilega á óvart! Vera leiðandi í umhverfis- og dýravernd í samvinnu við alþjóðleg dýraverndunarsamtök og sjónvarpsstöðvar eins og Discovery channel og National Geographic. Markaðssetja sundlaugar Reykjavíkur í útlöndum ekki sem “swimming pools” heldur sem “Outdoor Natural Spa” í miðri borg. Skoða möguleika, í samvinnu við Fangelsismálastofnun, að nota Arnarholt á Kjalarnesi undir alþjóðlegt “hvítflibbafangelsi,” og vista þar gegn gjaldi sakamenn frá Evrópu. Þetta yrði einnig gert í samvinnu við HÍ og HR, skapa atvinnutækifæri og reynslu.

 

Allskonar nýungar

Besti flokkurinn vill innleiða skemmtilegar nýjungar og tilbreytingu í daglegu lífi borgarbúa enda er þetta besti og skemmtilegasti flokkur sem búinn hefur verið til. Við viljum færa frídaga í miðjum vikum að helgum. Reykjavíkurborg mun halda Þakkagjörðarhátíðina hátíðlega og hvetja íbúa til hins sama. Það væri ábyggilega hollt fyrir alla. Við viljum halda sérstök konukvöld í Reykjavík, til dæmis á konu- og mæðradaginn. Þá væru karlmenn beðnir um að halda sig heima. Lögregluvaktin yrði einungis skipuð konum. Þetta gæti orðið mjög skemmtilegt. Við viljum flytja inn íkorna og froska og aðlaga þá aðstæðum í Reykjavík. Froska á tjörnina. Íkorna í Hljómskálagarðinn.

Facebook